Forsvarsmenn Samherja eru í Stundinni sagðir ætla að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson beri vitni fyrir dómstólum í Namibíu. Starfsmaður Samherja hefur kært innbrot í síma sinn og tölvu til lögreglunnar en bæði Kjarninn og Stundin birtu í morgun fréttir sem eru byggðar á samskiptum starfsmanna Samherja og ráðgjafa fyrirtækisins.
Hjá Rúv.is er sagt að í umfjöllun Stundarinnar sé vitnað í samskipti forsvarsmanna Samherja og þeir sagðir vilja kæra Jóhannes fyrir „þjófnaðinn úr fiskbúðunum.“
Verði honum í leiðinni talin trú um að samningur hans við namibísk stjórnvöld haldi ekki eigi hann ekki eftir að mæta í réttarsal. Saksóknari í Namibíu hefur lýst því yfir að hann vilji ákæra þrjá fyrrverandi og núverandi starfsmenn Samherja.
Jóhannes er einn af sex núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Samherja sem hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn yfirvalda hér á landi en hefur fengið friðhelgi sem vitni í Namibíu.
Jóhannes segir í samtali við Stundina að áætlanir Samherja um að kæra hann í Namibíu komi ekki á óvart.