,,Sat minn fyrsta borgarstjórnarfund á þriðjudaginn og flutti sjö tillögur. Hlakka til að takast á við komandi verkefni í Velferðaráði sem ég var kosin í og er full tilhlökkunar við að kynna mér allt hjá Mannréttinda- og lýðræðisráði og Skóla- og frístundaráði sem ég er varamaður í.
Vildi þó óska þess að borgarstjórnarfundir væru ekki lagðir niður í sumar, þar sem ég hef ekki atkvæðisrétt í borgarráði sem á að sjá um málin í sumarleyfi borgarstjórnarfunda. Er enn að reyna að átta mig á því hvernig fundir fara þó í frí.“ Segir Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, lagði fram bókun þegar lagt var til að borgarstjórn tæki sér sumarfrí eftir fundinn í dag og kæmi ekki saman fyrr en í byrjun september.
Í bókuninni segir: „Kjörnir borgarfulltrúar voru kosnir í vor til að taka á ýmsum mikilvægum málefnum er varða hag borgarbúanna og rætt var um í kosningabaráttunni. Þar vegur húsnæðiskreppan stórt, margir búa við óöryggi á leigumarkaði eða skortir búsetuúrræði og grefur slíkt úr lífskjörum almennings.
Við vorum hingað kosin inn til að taka á málunum og vinna fyrir fólkið sem kaus okkur og því er óásættanlegt að sumarleyfi hefjist strax eftir fyrsta fund borgarstjórnar, áður en að okkur gefst færi á að ræða þau málefni sem kjósendur beindu að okkur í kosningabaráttunni.