Ökumaður bifhjóls var stöðvaður á Suðurlandsvegi við Lögbergsbrekku um níuleytið í gærkvöldi eftir að lögregla hafði mælt hjólið á 210 km/klst. – Annar bifjólamaður undir áhrifum áengis og fíkniefna
Ökumaðurinn viðurkenndi 180 km/klst., að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann er einnig grunaður um önnur umferðarlagabrot, t.d. brot gegn banni við framúrakstri, skráningarmerki ógreinilegt o.fl. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða og afhenti ökuskírteini sitt.
Um klukkan 22 í gærkvöld var svo bifhjóli ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótum Geirsgötu og Tryggvagötu. Ökumaður bifhjólsins er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Einnig að hafa ekið sviptur ökuréttindum og að vera með fíkniefni í fórum sínum. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið. Að aðhlynningu lokinni var hann vistaður í fangageymslu.