Meðalheildarlaun fólks í fullri vinnu voru 935 þúsund krónur á síðasta ári og hækkuðu um 11,1% á rúmu ári. Meðallaun eru hvergi hærri í OECD þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi.
Meðalheildarlaun allra fullvinnandi á íslenskum vinnumarkaði voru 935 þúsund krónur á mánuði á síðasta ári. Laun hækkuðu um 11,1% í síðustu kjarasamningslotu, frá nóvember 2022 til janúar 2024. Á sama tíma hefur verðbólga mælst há og því jókst kaupmáttur launa aðeins um 1% í fyrra. Þetta kemur fram í frétt ríkisútvarpsins og þar segir jafnframt:
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu kjaratölfræðinefndar. Meðallaun á Íslandi eru þau hæstu í OECD þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi.
Um 219.000 manns störfuðu á íslenskum vinnumarkaði í fyrra, þar af 29% hjá hinu opinbera. Meðallaun eru hæst hjá ríkinu, hvort sem litið er til grunnlauna eða heildarlauna, en launadreifing er aftur á móti meiri á almennum vinnumarkaði.
Verðbólga hefur reynst þrálátari en búist var við, en meginmarkmið nýrra kjarasamninga til næstu fjögurra ára er að stuðla að lækkun hennar og auka kaupmátt. Í síðustu kjarasamningum var samið um lægri hlutfallshækkun, eða 3,25%.
Lágt atvinnuleysi og mikil atvinnuþátttaka
Í alþjóðlegum samanburði er atvinnuleysi á íslenskum vinnumarkaði lágt og atvinnuþátttaka mikil. Atvinnuleysi mælist 3,6% og er aðeins lægra í einu ríki OECD; Þýskalandi.
Vinnutími er tiltölulega stuttur í alþjóðlegum samanburði, en vinnutíminn er sá sjöundi stysti í OECD.
Með tilliti til verðlagsþróunar jókst kaupmáttur grunntímakaups, sem best endurspeglar umsamdar launahækkanir í kjarasamningum, um 2,6% í kjarasamningslotunni frá nóvember 2022 til janúar 2024.