Piltarnir þrír sem eru ákærðir fyrir morð á pólskum karlmanni á bílastæði við Fjarðarkaup eru sagðir hafa veist ítrekað að honum og sparkað í hann. Sá elsti er sagður hafa stungið manninn ítrekað þar sem hann lá varnarlaus á bílastæðinu. Ríkisútvarpið fjallaði um málið.
Réttarhöldin yfir ungmennunum fjórum sem eru ákærð í manndrápsmáli í Hafnarfirði verða lokuð. Þetta staðfestir Jónas Jóhannsson, dómari í málinu, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu rúv. Hann segir þetta gert að kröfu foreldra þeirra þriggja sakborninga sem eru börn að aldri. Aðalmeðferðin fer fram í haust.
Lýsingin á árásinni er mjög nákvæm og hún virðist hafa verið ofsafengin
Piltarnir eru í ákærunni sagðir hafa umkringt manninn. Saksóknari segir að sá elsti hafi hrint manninum í jörðina og annar piltanna síðan sparkað í maga hans þar sem hann lá. Sá elsti er svo sagður hafa hótað manninum að stinga hann með hníf í hálsinn og síðan stappað og sparkað í höfuð hans.
Saksóknari segir að maðurinn hafi náð að standa upp eftir þessar aðfarir en þá hafi piltarnir veist að honum aftur. Í ákærunni kemur fram að sá elsti hafi fellt hann í jörðina og stungið hann ítrekað með hnífi í búkinn, annar piltanna sparkað ítrekað í búk hans og sá þriðji reynt að sparka í höfuð hans en spark hans geigað.