Athugull borgari setti sig í samband við lögregluna á dögunum og tilkynnti um torkennilegan hlut sem varð á vegi hans á heilsubótargöngu í austurborginni. Með fylgdu greinargóðar upplýsingar um staðsetningu hlutarins, sem viðkomandi sá í gróðri nokkuð utan við göngustíg á fjölfarinni leið, en engar frekari upplýsingar um hlutinn sjálfan.
Ætla má að borgarinn hafi talið það ráðlegra að lögreglan myndi taka hlutinn til nánari skoðunar, frekar en að hann gerði það sjálfur enda aldrei að vita hvaða hættur kunna að leynast þegar torkennilegir hlutir eru annars vegar. Með fyrrnefndar upplýsingar í farteskinu héldu tveir lögreglumenn til leitar að hinum torkennilega hlut, en segja má að á þá hafi runnið tvær grímur þegar á vettvang var komið.
Ágætlega gekk að koma augu á hlutinn í gróðrinum, en það þurfti að fara alveg upp að honum til að ganga úr skugga um hvað hér var á ferðinni. Til að gera langa sögu stutta reyndist þetta vera kynlífsdúkka í fullri stærð. Dúkkan var flutt á lögreglustöð, en eigandi hennar er ófundinn þegar þetta er ritað.