Alls störfuðu 6.963 í leikskólum í desember 2023 og hafði fækkað um 156 frá fyrra ári, eða um 2,2%. Leikskólabörnum fækkaði um 145 (-0,7%) á sama tímabili.
Brottfall úr starfi jókst frá fyrra ári, en rúmlega fjórðungur þeirra sem starfaði við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember árið 2022 var ekki lengur við störf á leikskólum í desember árið 2023. Brottfall leikskólakennara hækkaði úr 10,7% í 12,1% á milli ára. Þetta kemur fram á vef ríkisútvarpsins og þar segir jafnframt:
Hagstofa Íslands birtir í fyrsta sinn tölur um uppruna starfsfólks á leikskólum. Fimmtungur leikskólastarfsfólks er af erlendu bergi brotinn. Hlutfall innflytjenda er langhæst á meðal annars starfsfólks en kennara og yfirmanna.
Innflytjendur 53% starfsfólks
Starfsfólki með erlendan bakgrunn við uppeldi og menntun leikskólabarna hefur fjölgað síðustu ár. Hlutfall innflytjenda sem starfa á leikskólum landsins hækkaði úr 15,5% í 21,6% á milli áranna 2020 og 2023.
Þegar litið er til starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna að frátöldum yfirmönnum voru innflytjendur 23,3% starfsfólks í desember 2023.
Hlutfall innflytjenda er langhæst á meðal annars starfsfólks en kennara og yfirmanna, svo sem þeirra sem starfa í eldhúsi og við þrif, en í þeim hópi voru innflytjendur 53% starfsfólks.