Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, undirrituðu í dag tvíhliða viljayfirlýsingu um varnarmál í tengslum við heimsókn Pistoriusar til Íslands. Með yfirlýsingunni er lagður grunnur að auknu samstarfi Íslands og Þýskalands sem eflir eftirlit og öryggi á Norður-Atlantshafi og sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins.
„Ísland hefur að undanförnu markvisst aukið tvíhliða og svæðisbundið varnarsamstarf við grannríki og lykilbandamenn innan Atlantshafsbandalagsins. Slíkt samstarf gegnir mikilvægu hlutverki til að treysta gagnkvæman skilning og þekkingu sem eflir sameiginlega varnargetu Atlantshafsbandalagsins. Ísland og Þýskaland hafa átt náið og farsælt samstarf innan bandalagsins í sjö áratugi og með þessari yfirlýsingu er tekið mikilvægt skref til að efla okkar tvíhliða varnarsamvinnu sem styrkir meginstoðir Íslands í varnar- og öryggissamstarfi, aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin.
Þjóðverjar hafa verið að auka varnargetu sína umtalsvert og horfa til að þess að styrkja getu til eftirlits og aðgerða á Norður-Atlantshafi ásamt öðrum bandalagsríkjum. Það mun auka öryggi svæðisins og efla sameiginlegar varnir, “ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Þýski varnarmálaráðherrann kom til Íslands síðdegis í dag og átti í kjölfarið fund með utanríkisráðherra en yfirlýsingin var undirrituð við lok fundarins. Á morgun mun Pistorius funda með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og heimsækja öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli áður en hann heldur af landi brott. Í fylgdarliði varnarmálaráðherrans er hópur þingmanna úr þýska Sambandsþinginu og munu þingmennirnir funda með utanríkismálanefnd Alþingis á morgun.