,,Stórir fjárfestingargammar hnita hringa yfir samfélagi í samdrætti og erfiðleikum“
Hún lét ekki mikið yfir sér grein Þorsteins Sæmundssonar, alþingismanns, á Vísi á mánudag. Í mínum huga var þessi hógværa grein eftirtektarverð fyrir margra hluta sakir. Þar koma fram nýjar upplýsingar um hverjir standi að baki fjárfestingarsjóði sem fékk keyptar, í einni spyrðu, árið 2013, 370 íbúðir af þeim 4000 sem Íbúðalánasjóður hefur selt.
Upplýsingar um sölu og brask með þessar eignir komu einnig fram í júní síðastliðnum og þá einnig að frumkvæði Þorsteins Sæmundssonar.
Í bankahruninu hröktust þúsundir einstaklinga og fjölskyldna úr húsnæði sínu. Síðar kom í ljós að í kjölfarið gekk þetta húsnæði kaupum og sölum og var ótæpilega með það braskað. Þorsteinn vill fá fram upplýsingar um samsvarandi þróun á síðustu árum, hvernig staðið var að sölu íbúðarhúsnæðis í umsjá Íbúðalánasjóðs og hvað síðan var með þær gert.
Það sem við sjáum teiknast upp á Íslandi að nýju, eru stórir fjárfestingargammar að hnita hringa yfir samfélagi í samdrætti og erfiðleikum. Niðurstaðan verður sífellt meiri eignasamþjöppun.
Eftir bankahrunið urðu til miklir eigna-brask-sjóðir sem brátt tóku að gína yfir miklum eignum, Gamma(r) voru dæmi þar um en einnig aðrir sjóðir. Morgunblaðið upplýsti í vikunni að fasteignafélagið Reitir hefðu hagnast um 889 milljónir á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Það gera þá tæpar 300 milljónir á mánuði. Þarna eru lífeyrissjóðirnir að græða en þetta varpar ljósi hvað eignabrask getur gefið í aðra hönd.
Hitt sem stundum vill gleymast, nánast sem ómerkilegt smáatriði, er uppruni þeirra eigna sem seldar hafa verið frá Íbúðalánasjóði. Þetta eru nefnilega svokallaðar “fullnustueiginir”, það er að segja íbúðir sem seldar eru eftir gjaldþrot eða vangetu eigendanna til að greiða af húsnæðinu. Ef um er að ræða íbúðalán fjölskyldu þá þýðir þetta að fjölskyldan er að öllum líkindum að verða húsnæðislaus. Það er ekkert smámál.
Braskið og samþjöppunin verður sýnilegri í vitund okkar þegar fjárfestarnir koma langt að, dæmi þar um er malasíski fjárgróðamaðurinn Tang, sem hefur eignast Foss hótelin og er nú að fá, að því er manni skilst, stuðningslán með ríkisábyrgð til enn frekari fjárfestinga!
Ég óttast að við eigum eftir að sjá miklu meira af svo góðu. Nú er hætt við að eignatilfærslan sé að hefjast fyrir alvöru.
Sjóðurinn sem Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður, er að greina, hefur á bak við sig drjúgan hóp fjárfesta, sumir búsettir hér á landi, aðrir í öðrum löndum, þar á meðal á Jómfrúareyjum.
Hér er ívitnuð grein Þorsteins á vefmiðlinum Vísi : https://www.visir.is/g/20202037603d/hverjir-fengu-svo-ad-kaupa-ibudirnar-
https://gamli.frettatiminn.is/16/05/2020/thessir-hirtu-3302-ibudarhusnaedi-af-fjolskyldum-i-hruninu-enn-er-leynd-yfir-endanlegum-kaupendum/