4.8 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 26. janúar 2023
Auglýsing

Sendiráð Íslands í Varsjá tekur til starfa 1. desember

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img

Sendiráð Íslands í Varsjá í Póllandi tekur til starfa 1. desember næstkomandi. Fyrirsvar vegna Úkraínu, Rúmeníu og Búlgaríu verður við það tækifæri fært til hinnar nýju sendiskrifstofu.

Hannes Heimisson verður fyrsti sendiherra Íslands í Póllandi en hann gegndi áður stöðu sendiherra Íslands í Stokkhólmi. Forystufólk í pólsku stjórnmála-, viðskipta- og menningarlífi auk fulltrúa íslenskra fyrirtækja í Póllandi og pólsk íslenskra vináttufélaga verður viðstatt þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra opnar sendiráðið formlega.

„Samskipti Íslands og Póllands hafa aukist verulega á undanförnum árum, ekki síst vegna þess fjölda Íslendinga sem rekur uppruna sinn til Póllands og Pólverja sem búsettir eru á Íslandi. Ég tel því ljóst að ýmis tækifæri eru uppi til að efla enn frekar samstarf þjóðanna, til dæmis á sviðum stjórnmála, efnahag og menningar. Ég er viss um að sendiráðið okkar í Varsjá á eftir að hafa mikið að segja í þeim efnum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Utanríkisráðherra tilkynnti um ákvörðun sína um að íslenskt sendiráð verði stofnsett í Varsjá í mars síðastliðnum. Pólsk stjórnvöld hafa starfrækt sendiskrifstofu í Reykjavík frá 2008, fyrst með aðalræðisskrifstofu og frá 2013 sem fullgilt sendiráð. Með opnun sendiráðs Íslands í Varsjá kemst því loksins á gagnkvæmni í stjórnmálasambandi ríkjanna.

Í september 2021 kom út skýrslan Vinátta og vaxtarbroddar: Samskipti Íslands og Póllands en hún er byggð á vinnu starfshóps sem þáverandi utanríkisráðherra skipaði. Skýrsluna má lesa hér á vef Stjórnarráðsins.