Rússar skutu ICBM-flugskeyti á Úkraínu í fyrsta sinn
Stjórnvöld í Úkraínu segja Rússa hafa skotið langdrægri flaug, sem getur borið kjarnorkuvopn, í fyrsta sinn að landinu í morgun. Ekki hafi þó verið kjarnorkuvopn á flauginni, ríkisútvarpið greindi frá sprengjunni.
Rússlandsher skaut nokkrum flaugum að borginni Dnipro í morgun, þar á meðal langdrægri flaug sem skotið var frá Astrakhan-héraði í Rússlandi, að því er fram kemur í tilkynningu Úkraínuhers.
Innviðir voru skemmdir í árásunum, auk þess sem nokkur hús og fyrirtæki skemmdust. Tveir voru fluttir særðir á spítala. Heiti flaugarinnar er skammstafað ICBM (e. intercontinental ballistic missile) og hefur AFP fréttaveitan eftir heimildarmanni að þetta sé í fyrsta sinn frá allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu sem þeir beiti þessu vopni.
Flaugarnar eru hannaðar til að bera bæði hefðbundnar sprengjur og kjarnorkusprengjur. Heimildarmaður AFP segir augljóst að hún hafi ekki borið kjarnorkuvopn í morgun. Hægt er að skjóta slíkum flaugum á skotmark í nokkur þúsund kílómetra fjarlægð.