Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, dómsmálaráðherra, utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra um að fallast á útfærslu flóttamannanefndar um móttöku viðkvæmra hópa flóttafólks frá Úkraínu vegna þess ástands sem hefur skapast í landinu í kjölfar innrásar Rússlands.
Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, þann 22. mars um að fela flóttamannanefnd að útfæra tillögur um sérstaka móttöku viðkvæmra hópa flóttafólks frá Úkraínu, og eftir atvikum tillögur sem eru til þess fallnar að létta á álagi í nágrannaríkjum Úkraínu vegna fjölda flóttafólks. Telur ríkisstjórnin mikilvægt að huga að hópum sem eru í sérlega viðkvæmri stöðu og einnig hvort hægt sé að létta á byrðum þeirra nágrannaríkja Úkraínu sem eiga sérstaklega erfitt með að anna fjölda flóttafólks.
Fyrstu viðbrögð og aðgerðir stjórnvalda samkvæmt tillögum flóttamannanefndar eru eftirfarandi:
- Tekið verður á móti allt að 100 manns sem hafa leitað til Moldóvu frá Úkraínu. Landið er eitt fátækasta ríki Evrópu en alls hafa um 450.000 manns leitað yfir landamærin og stendur Moldóva frammi fyrir stórum áskorunum til að tryggja öryggi og húsaskjól fyrir þessa einstaklinga.
- Tekið verður á móti fimm til sjö fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra, en ákall hefur komið frá pólskum stjórnvöldum um að taka á móti þessum einstaklingum. Mikilvægt er að halda vel utan um þennan hóp sem þarf mikinn stuðning og þjónustu. Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra sé um 15-20 manns.
- Íslensk stjórnvöld munu taka á móti sjúkum og særðum og nánum fjölskyldumeðlimum þeirra. Sendar eru út beiðnir vegna móttöku einstaklinga sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda úr evrópskum gagnagrunni. Tilgreint er í hvert sinn hvers konar heilbrigðisþjónustu er þörf á og með því móti er hægt að taka á móti einstaklingum í samræmi við getu heilbrigðiskerfisins hverju sinni. Fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins ásamt fulltrúa Almannavarna munu vakta beiðnir og meta getu heilbrigðiskerfisins til að sinna ákalli hverju sinni.
Fjöldi þeirra einstaklinga frá Úkraínu sem þegar hefur sótt um vernd hérlendis er rúmlega 820 manns og mun halda áfram að aukast á næstunni. Með ákvörðun sinni í morgun mun ríkisstjórnin taka sérstaklega á móti viðkvæmum hópum frá Úkraínu og nemur heildarfjöldi þeirra sem nú er stefnt að því að taka á móti á bilinu 120-140 manns.