Í dag, 22. maí kl. 09:53 varð skjálfti af stærð M3,5 um 3 km VNV af Grindavík og kl. 09:57 varð annar skjálfti á sömu slóðum af stærð M3,6. Tilkynningar hafa borist um að þeir hafi fundist í byggð. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt, þeir stærstu M2,7 að stærð.
Nokkuð dró úr hrinunni á Reykjanesskaga í gærkvöldi og nótt en hún tók sig upp aftur núna um 10-leytið í morgun en þó ekki af sama krafti og áður. Við viljum benda á það að grjóthrun og skriður geta átt sér stað í hlíðum þegar svona skjálftar eiga sér stað og fólk beðið um að sýna aðgát á þeim svæðum.
Vikuyfirlit 9. maí – 15. maí
Yfir 4000 jarðskjálftar mældust með SIL-kerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku. Af þeim hafa rúmlega 1300 skjálftar verið yfirfarnir. Stærsti skjálfti vikunnar var 4,8 að stærð kl. 16:56 þann 14. maí í Þrengslunum. Hann fannst víða á suðvesturhorni landsins. Á Reykjanesskaga var talsverð skjálftavirkni og í vikunni voru nokkrar skammvinnar hrinur með allnokkrum skjálftum yfir 3 að stærð.
Stærstu skjálftarnir voru 4,3 og 4,2 að stærð í Eldvörpum í hrinu sem hófst þann 15. maí. Gervitunglamyndir og aflögunargögn benda til kvikuinnskots við Þorbjörn og er enn mikil skjálftavirkni í nágrenni hans. Þann 10. maí mældist skjálfti af stærðinni 3,2 austan við Grímsey. Sex skjálftar mældust í Bárðarbungu og einn í Öræfajökli.
https://gamli.frettatiminn.is/22/05/2022/jord-skelfur-i-grindavik-og-nagrenni/