Lögreglan í Hafnarfirði hefur til rannsóknar nokkur ofbeldisbrot gegn börnum undanfarnar vikur. Ráðist var á tæplega tólf ára stúlku við Víðistaðaskóla í morgun og hún tekin hálstaki. Lögregla hefur til rannsóknar hvort gerandi sé sá sami og tilkynnt var að hafi ráðist á börn í Hafnarfirði fyrr í mánuðinum.
Stúlkan var á leið í skólann í morgun þegar fullorðinn maður kom aftan að henni, tók hana hálstaki og tók fyrir munninn á henni. Að sögn foreldra stúlkunnar náði hún að bíta gerandann, sparka í hann og slíta sig lausa. Lögregla staðfestir að tilkynning um málið hafi borist rétt eftir átta. Fjallað var um málið á vef rúv.is og þar segir jafnframt:
,,Stúlkan ber sig vel miðað við það sem á undan er gengið að sögn föður. Líkamlegir áverkar séu óverulegir en hún sé í vægu uppnámi.
Skúli Jónsson stöðvarstjóri í Hafnarfirði segir fréttastofu rúv að málið sé til rannsóknar. Ekki sé vitað hver hafi verið að verki en lögð sé áhersla á að hafa uppi á gerandanum. Tilkynnt hefur verið um svipuð mál í Hafnarfirði undanfarnar vikur þar sem fullorðinn maður hefur ógnað, elt og komið aftan að börnum. Lögreglan staðfestir að það sé til rannsóknar hvort málin tengist og hvort gerandi sé sá sami.“