Engar sterkar vísbendingar um yfirvofandi stórfelld hrun af völdum jarðskjálfta
Starfsmenn frá Veðurstofunni og Náttúrufræðistofnun fóru í vettvangsflug með Landhelgisgæslunni seinni partinn í gær. Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að kanna óstöðugleika í hlíðum og ummerki um skriðuföll á svæðinu.
Flogið var yfir nyrsta hluta Tröllaskaga þar sem áhersla var lögð á að kanna þekkt jarðsigssvæði og hlíðar ofan vega og ofan við þéttbýli. Eins voru ummerki um hrunin í Gjögurfjalli og Hvannadalsbjargi skoðuð sérstaklega en neðan þeirra mátti sjá myndarlegar skriðudyngjur sem staðfesta að þar urðu skriður.
Niðurstöður ferðarinnar voru jákvæðar með tilliti til skriðufalla þar sem engin ummerki um stórfelldar sprungur var að finna á þessum svæðum og því engar sterkar vísbendingar um yfirvofandi stórfellt hrun af völdum stórra jarðskjálfta. Eins sáust engin ummerki um að stórar fyllur hefðu fallið úr hlíðum. Vegna mikillar óvissu um áframhaldandi þróun jarðskjálftavirkninnar er ekki þó ekki hægt að útiloka slíka atburði í framtíðinni. Á þeim stöðum þar sem auðvelt var að greina ummerki um skriður eða grjóthrun var yfirleitt um svæði að ræða þar sem mikið er jafnan af lausaefnum, hlíðar bratta og skriður þar algengar.
Fjöldi skjálfta s.l. 48 klst:
- Stærð minni en 1 alls: 60
- Stærð 1 til 2 alls: 1127
- Stærð 2 til 3 alls: 603
- Stærri en 3 alls: 119
- Samtals: 1909