Hér fyrr á árum var vinsælt hjá alþýðuvinum að halda til Kúbu að hjálpa einræðisherranum Fidel Castro við að skera sykurreyrinn og koma honum í hlöðu þaðan sem afurðin var flutt til Sovétríkjanna sálugu.
Ekki veit undirritaður hvort Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, fór í slíkar ferðir nema þá kannski í huganum brosandi með hinum “alþýðuvinunum”. En nú virðist hún hafa tekið upp vinnubrögð Fidel Castro þegar hún með tilskipun er byggir á niðurstöðum nefndar úr djúpi kerfisins bregður fæti fyrir hóp vinnandi manna er hugðust halda til veiða. Þarna kemur hitt andlit “alþýðuvinarins” vel í ljós. Kúbuheilinn virkar nefnilega þannig að þeir sem ekki eru að skapi “alþýðuvinarins” geta étið það sem úti frýs.
Á Kúbu er miskunnarlaust barið á þeim er ekki fylgja í blindni tilskipunarstjórninni. Allar tillögur þeirrar stjórnar eru að sjálf sögðu í anda alþýðunnar enda er hún skilgreint hugtak er passar inn í “alþýðuvinahugmyndafræðina” hinir eru óvinir alþýðunnar og eiga engan rétt. Hvalveiðar passa ekki inn í alþýðuvinahugmyndafræði Svandísar Svavarsdóttur.
Skiptir hana engu þótt verkamenn á plani standi uppi verkefnalausir og hafa sumir jafnvel gengið úr annari vinnu til að komast í uppgripin í hvalnum. Á Kúbu spila ríkisfjölmiðlar með “alþýðuvinunum” og birta aðeins fréttir er passa við hugmyndafræðina. Þar eru menn líka sérfræðingar í að birta ekki fréttir af því sem ekki hentar fræðunum. Verður fróðlegt að sjá hvernig Ríkisútvarpið bregst við tilskipun Kúbuheilans.
Umræða