Skráð voru 955 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júní og fjölgaði þessum brotum á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir júní 2021.
Tilkynningum um innbrot fjölgaði á milli mánaða og fjölgaði innbrotum á heimili mest. Alls var tilkynnt um 59 innbrot á heimili í júní en ekki hafa borist jafn margar tilkynningar í einum mánuði frá því desember 2018. Heildarfjöldi innbrota það sem af er ári er þó svipaður og síðustu tvö ár á undan. Flest innbrot á heimili áttu sér stað á svæði lögreglustöðvar 1, sem nær yfir Miðborg, Vesturbæ, Seltjarnarnes, Háaleiti, Hlíðar og Laugardal.
Alls bárust 116 tilkynningar um ofbeldisbrot í júní. Eru það færri tilkynningar en í maí. Það sem af er ári hafa borist álíka margar tilkynningar um ofbeldisbrot líkt og bárust að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan. Tilvikum þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi fjölgaði nokkuð á milli mánaða. Alls voru 8 slík brot skráð í júní.
Tilkynningum um heimilisofbeldi fækkaði nokkuð á milli mánaða. Alls voru skráðar 57 tilkynningar í júní. Það sem af er ári hafa hins vegar borist um 18 prósent fleiri tilkynningar samanborið við meðalfjölda sama tímabils síðustu þrjú ár á undan.
Töluverð fjölgun hefur verið á tilkynningum um eignarspjöll á höfuðborgarsvæðinu. Alls voru 177 tilkynningar skráðar í júní sem eru umtalsvert fleiri tilkynningar en síðustu mánuði á undan. Líta þarf aftur til október 2010 til þess að finna álíka margar tilkynningar um eignarspjöll líkt og bárust í júní.
Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði á milli mánaða. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fækkaði einnig á milli mánaða líkt og tilkynningar þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.
Í júní voru skráð 708 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum). Það sem af er ári hafa verið skráð um 24 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.