Hagnaður samstæðu Samherja árið 2021 var í heild 17,8 milljarðar króna í samanburði við 7,8 milljarða árið 2020. Sala á hlutabréfum í Síldarvinnslunni setti mark sitt á afkomu ársins. Fram kemur í skýringum með uppgjöri að hækkandi olíuverð hafi leitt til aukins kostnaðar fyrir fyrirtækið. Meðal annars hafi olíukostnaðurinn við útgerð Vilhelms Þorsteinssonar hækkað um 300 milljónir á ári. Þetta kom fram á aðalfundi Samherja hf. sem haldinn var á Dalvík 19. júlí s.l.
Eignir í árslok námu 128 milljörðum króna og eigið fé var í árslok 94,3 milljarðar króna eða samtals 222,3 milljarðar. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var því 73,6%, miðað við 72% árið á undan, sem undirstrikar að efnahagur félagsins er traustur.
Seldar afurðir Samherja voru 52,8 milljarðar króna og að meðtöldum öðrum rekstrartekjum námu rekstrartekjur alls 56,7 milljörðum króna á árinu 2021. Hagnaður af rekstri samstæðunnar nam 17,8 milljörðum króna í samburði við 7,8 milljarða króna árið á undan.
Samherji hf. stundar útgerð, fiskvinnslu, fiskeldi, sölu- og markaðsstarfsemi á sviði sjávarútvegs og annan skyldan rekstur. Í ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf., kom fram að miklar fjárfestingar væru fyrirhugaðar í fiskeldi á komandi árum, allt að 60 milljarða króna. „Við hjá Samherja höfum mikla trú á landeldi en öll uppbygging er gríðarlega fjárfrek. Þess vegna skiptir höfuðmáli að félagið sé fjárhagslega öflugt nú sem áður. Ársreikningur samstæðunnar sýnir að svo er. Aðalfundur félagsins ákvað að greiða ekki arð og beina fjárfestingarstyrk félagsins inn í ný verkefni á sviði sjávarútvegsins,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson.
https://gamli.frettatiminn.is/17/07/2022/fatekar-fjolskyldur-kvida-haustinu-oryrkjar-og-innflytjendur-verst-staddir/
https://gamli.frettatiminn.is/21/07/2022/island-er-ekki-lydradisriki-nema-ad-nafninu-til-stjornskipanin-einkennist-af-audraedi-eda-oligarkisma/