Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað að Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafi ekki brotið gegn jafnréttislögum þegar karlkyns starfsmanni var synjað um launað leyfi til að styðja kvennaverkfallið 24. október árið 2023. Kærunefnd jafnréttismála taldi að þó synjunin hefði falið í sér mismunun á grundvelli kyns væri hún réttlætanleg sem sértæk aðgerð sem stuðlar að jafnrétti kynjanna.
Karl kærði synjun um launað leyfi frá störfum
Starfsmaður ÍSOR, sem er karl, óskaði eftir launuðu leyfi til að sýna samstöðu með kvennaverkfallinu, þar sem 48 ár voru liðin frá fyrsta kvennafrídeginum 1975. Forstjóri stofnunarinnar hafði þá sent starfsmönnum skilaboð um að konur og kvár gætu tekið þátt í verkfallinu án þess að laun þeirra skertust. Kærandi hélt því fram að synjun á sams konar leyfi til karla bryti gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og jafnlaunastefnu stofnunarinnar. Kærandi benti á, í rökstuðningi sínum, að tilgangur laganna væri að tryggja jafnræði, ekki að mismuna öðru kyni, og vísaði jafnframt til jafnréttisstefnu og jafnlaunavottunar ÍSOR.
ÍSOR vísaði til sértækra aðgerða
ÍSOR hélt því fram að leyfið sem veitt var konum og kynsegin fólki teldist sértæk aðgerð samkvæmt jafnréttislögum, ætlað að styðja við hópa sem hallar á á vinnumarkaði. Þátttaka kvenna og kvára í kvennaverkfallinu væri hluti af tímabundinni vitundarvakningu um launamisrétti, vanmat á störfum kvenna og kynbundið ofbeldi og að veitt leyfi fæli í sér þátttöku í samfélagslegri skyldu fyrirtækisins.
Nefndin féllst á að um mismunun væri að ræða – en réttlætanlega
Kærunefnd jafnréttismála tók undir það að kærandi hefði orðið fyrir mismunun á grundvelli kyns, þar sem hann fékk ekki sambærilegt leyfi. Hins vegar taldi kærunefnd jafnréttismála að aðgerðirnar sem konum og kvárum voru heimilaðar væru sértækar og tímabundnar samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020. Í úrskurðinum segir að kvennaverkfallið 2023 hafi verið markviss aðgerð til að vekja athygli á ójafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði og falli því innan þess svigrúms sem atvinnurekendum sé heimilt að beita til að stuðla að raunverulegu jafnrétti.
Aðgerðin talin réttmæt og í samræmi við markmið laganna
Kærunefnd jafnréttismála bendir á, í úrskurði sínum, að kvennafrídagurinn hefði í áratugi verið táknræn og söguleg aðgerð sem beindist að kerfislægum kynjahalla samfélagsins. Því væri réttlætanlegt að veita konum og kynsegin fólki launað leyfi til þátttöku, án þess að slíkt bryti gegn jafnréttislögum. Synjun á launuðu leyfi fyrir karlkyns starfsmann væri því ekki ólögmæt heldur í samræmi við ákvæði laganna um sértækar aðgerðir. Þá hefði ÍSOR boðið kæranda að nýta sér sveigjanleika í vinnu eða orlof í staðinn. Úrskurðurinn undirstrikar að sértækar aðgerðir, eins og kvennaverkfallið, geti réttlætt tímabundna mismunun ef hún er til þess fallin að bæta stöðu hópa sem á hallar.