Margur elur dramb sitt á annarra sveita (svita)
Grjónagrautur er góður sagði Steingrímur heitinn Hermannsson fyrrverandi ráðherra margra stóla eitt sinn er hann reyndi að stappa stáli í þjóðina á þrengingar tímum. Síðan þá hefur hún marga fjöruna sopið í boði helmingaskipta-flokkana – borðað marga diska af grjónagraut með kanilsykri og lært af asískum innflytendum hvernig drygja má ýmsa rétti með hrísgrjónum.

Lifsreyndur eldri borgari.
Mér finnst þegar ég hugsa til baka að hér hafi lengst af verið þrengingar tímar ef undan eru skilin „góðærisárin“ á höfuðborgarsvæðinu þar sem veðsetningargóssi kvótakerfisins var sólundað í eitthvað allt annað en uppbyggingu í sjávarútvegi. Helmingaskipta-flokkarnir sem lengst af hafa verið áskrifendur af hinu pólutískavaldi hafa alltaf verið með niðurskurðarhnífinn á lofti og skorið niður þar sem síst skyldi á sama tíma og verið var að innleiða hjá ríkinu verktakaþjónustu – alltso að úthluta ríkisspenum.
Á þeirra vakt breikkaði bilið milli elli og örorkulífeyris og lægstu launa mikið og bætur til þeirra verst settu svo sem barna og húsnæðisbætur fengu líka að kenna á niðurskurðahnífnum – þó framfærslukostnaður hafi stöðugt farið hækkandi.
Íslenska velferðarkerfið er lítið annað orðið en nafnið – Ísland stenst ekki lengur samanburð við önnur lönd er kenna sig við velferð og lýðræði – það er langur vegur þar frá.
Venjulegir launþegar hafa ekki lengur ráð á að eignast þak yfir höfuðið – margir því fastir á okurleigumarkaði sem engar skorður hafa verið settar – enda miðast allt hér við að þeir sem græða fái að gera það eftir eigin leikreglum – auðvitað á kostnað þeirra varnarlausu. Við erum svo ofan á allt annað rugl stöðugt að glíma við verðbólgu – heimatilbúna hagnaðardrifna verðbólgu sem er notuð sem vöndur á launafólk í kjaraviðræðum. Verðbólgan étur svo upp sparnað þeirra sem eru aflögufærir – hann rennur í sjóði bankanna í gegnum húsnæðislánin – sem stíga stundum eins og hitamælar á sólríkum sumardögum.
Það eru ekki launin á almennum vinnumarkaði sem valda verðbólgu
Við verðum að skipta um gjaldmiðil til að bjarga okkur út úr þessari hringavitleysu – það er ekki endalaust hægt að miða hér allt við þá sem græða á verðbólgunni og láta almenning halda uppi hágæða lifistandard lítils minnihluta. Það eru ekki launin á almennum vinnumarkaði sem valda verðbólgu – það er tröllasaga sem á að hemja kröfur brauðstritarana. Það er aldrei talað um verðbólgudrauginn þegar peningarnir rata á „réttar“ hendur – það nefndi enginn drauginn þann til að mynda þegar afraksturinn af vestfirska efnahagsundrinu flaut inn í íslenskt hagkerfi – og var hann nú ekki svo lítill.
Vandinn í heilbrigðiskerfinu
Já, tossalistinn er langur og innviðaskuldin stór og gjarnan er fyrst horft til heilbrigðisþjónustunnar þegar kemur að vandræðagangi. Það þyrfti að taka út heilbrigðiskerfið af óháðum aðilum sem standa utan klíkusamfélagsins innan þess – það þarf að greina kostnaðinn við kaup á verktakaþjónustu ekki síst sérfræðilækna. Það þarf að setja einkavæðingunni innan kerfisins skorður – hún er dýr og bitnar víða á gæðum þjónustunar. það fást til að mynda ekki sérfræðilæknar út á land nema sem verktakar – þann vanda á svo að leysa með fjarlæknisþjónustu – sem sé – „Tóti tölvukarl“ fyrir „annan flokk“ út á landi – værsgo !
Það hefur mikið og lengi verið rætt um vandann í heilbrigðiskerfinu en allt er við það sama. Fráflæðisvanda kennt um oft sem áður – en freistandi að ætla að honum sé oft beitt fyrir til að draga yfir önnur og stærri og kannski viðkvæmari.
En auðvitað er Landspítalinn fyrir löngu búin að sprengja utan af sér – það gerðist þegar læknisþjónusta var að mestu aflögð fyrir margt löngu á landsbyggðinni.
Seint ætlar að ganga að koma upp nýjum spítala – það hefur sennilega tekið styttri tíma að byggja Versali fyrir tíma tæknivæðingar í byggingariðnaði en þetta blessaða Háskólasjúkrahús okkar – enda íslenskir verktakar ólíklega verið þar að verki – en við skulum vona að hann verði ekki farin að mygla og leka áður en hann kemst í notkun eins og svo títt er með nýbyggingar á Íslandi.
Fréttir herma að spítalinn muni kosta í kringum 180 milljarða fullkláraður – svipuð upphæð og vestfirska efnahagsundrið gat af sér – en það mun hafa bjargað ameríska erninum rétt mátulega fyrir þjóðhátíðardag Bandaríkjana – ekki hef ég fregnir af öðrum stórvirkjum undursins eða hvort það hafi komið að notum við að græða sár stríðshrjáðra á Gasa.
Skólakerfið er í hnút
Skólakerfið er í hnút ekki síður en heilbrigðiskerfið – soldið eins og skipulagt kaos. Einhverjir virðast hafa ákveðið að það væri gott að hauga öllum saman burt séð frá getu og tungumálafærni – kannski 25-30 nemendur í bekk með ólíkar þarfir og getu – það liggur í augum uppi að útkoman getur ekki orðið góð. En það þykir gott að hafa þetta svona út frá sjálfræðilegu sjónarmiði – það á að vera betra að börnin gráti yfir vangetu sinni í blönduðum hóp fremur en að gleðjast yfir framförum meðal jafningja. Hafa ber þó í huga að margar ástæður geta verið fyrir slökum námsárangri – utanaðkomandi sem ekkert hafa með vitsmuni að gera. Þess eru dæmi að „tossar“ hafa slegið bekkjasystkini sín út í námsárangri síðar á lífsleiðinni þegar kringumstæður hafa verið aðrar.
Íslendingar hafa aldrei lagt mikla áherslu á mannauðinn – áherslan hefur hins vegar verið á ódýrt vinnuafl fyrir atvinnulífið – sem hefur síðustu árin fullmikið verið að ráðskast með þjóðkjörna fulltrúa.
Rannsóknarstyrkir sem með réttu ættu að renna til Háskólanna hafa í auknu mæli verið að renna til einkafyrirtækja án eftirfylgni – sem er enn eitt dæmið um það hvernig einkareksturinn sogar til sín almannafé án þess að þurfa að gera grein fyrir hvernig því er ráðstafað.
Niðurskurður í velferðarkerfinu
Niðurskurður í velferðarkerfinu hefur aukist í takt við aukin fjáraustur til einkaaðila – sem í sumum tilfellum kallast útvistun verkefna – með öðrum orðum ríkisstyrktur einkarekstur – sem virðist fá sína reikninga greidda án þess að þeir séu rýndir. Við hljótum að gera kröfu um að þessi vinnubrögð verði tekin til skoðunar og að gögn verði aðgengileg svo sjá megi svart á hvítu hvort í þessu fyrirkomulagi felist einhver sparnaður – fyrir þarf að liggja hvað einkaaðilar taka fyrir sína þjónustu og hvort arður sé greiddur að auki – eins og tíðkast í fyrirtækjarekstri hér á landi. Sérstaklega þarf að rýna ríkisstyrktan einkarekstur hjúkrunarheimila sem er vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Það þarf allt að vera borðleggjandi þar sem sýslað er með almannafé.
Lífeyrissparnað á ekki að nota í vopnabrask
Auðvaldið dregst að peningum eins og mý að mykjuskán – það rennur á lyktina rétt eins og mýið og nú er ég ansi hrædd um að stríðsgróðrarhyggjan hafi þefað uppi íslensku lífeyrissjóðina – en um þá verðum við að standa vörð eins og Lykla-Pétur við sálnahliðið – lífeyrissparnaður almennings skal ekki litaður af blóði fórnarlamba stríðsátaka. Lífeyrissparnað okkar á heldur ekki að nota til að rétta af fjárlagahalla Bandaríkjana – í gegnum vopnabrask.
Hræðsluáróður hefur tilgang – oftast þann að fá fólk til að sætta sig við það óásættanlega og að kalla fram skyldurækni og fylgi við vafasaman málstað. Hræðsluáróður býr til sameiginlegan óvin fyrir fjöldann – við vitum hver okkar óvinur á að vera – daglega eru okkur færðar fréttir af STÆRSTU árás rússa á Úkraínu hingað til og af fjárveitingum Nató-ríkja til vopnakaupa Úkraínu til handa. Það virðast engum vandkvæðum bundið að koma drápstólum milli landa og jafnvel heimsálfa þó það reynist þrautin þyngri að koma bjargráðum til særðra og sveltandi á Gasa – þar sem skelfingin ein ræður ríkjum – ekki bara í boði Ísrael heldur einnig allra þjóðarleiðtoga heimsins sem setið hafa aðgerðarlausir hjá og horft upp á ein blóðugustu fjöldamorð síðari tíma í beinni útsendingu.
Siðblindan fer með völdin í henni veröld – hún er miskunarlaus og sjálfhverf – hún er útsmogin og lygin – hún er frek, tilætlunarsöm og uppáþrengjandi – hún sættir sig ekki við rétt annarra ef hann gengur gegn hennar hagsmunum – hún virðir ekki lög en ætlar öðrum að gera það – lýðræðið sem hún hefur lítinn skilning á er eitur í hennar beinum og hún telur sig allt eiga og mega – svo ekki að undra að heimsbyggðin skuli nú á vondum stað.
Sá sem veit og veit að hann veit,
hann er vitur – fylgdu honum.
Sá sem veit og veit ekki að hann veit,
hann sefur – vektu hann.
Sá sem sefur ekki en veit ekki að hann veit ekki,
hann er flón – forðastu hann.
Sá sem veit ekki og veit að hann veit ekki,
hann er barn – fræddu hann.
Arabískt
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir
Lífsreyndur eldri borgari