Tillaga laganefndar Miðflokksins um að leggja niður varaformannsembættið var samþykkt á aukalandsþingi flokksins en samkvæmt tillögunni verður þingflokksformaður talsmaður stjórnar í forföllum formanns.
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins var sú eina sem hafði tilkynnt um framboð sitt til varaformanns gegn sitjandi formanni, Gunnari Braga Sveinssyni en hann er einnig þingflokksformaður. Vigdís segir við Rúv í dag að hún muni ekki sækjast eftir sæti í stjórn flokksins.
Og hvað svo? Hvar endar þetta eiginlega? Hverskonar vinnubrögð eru þetta og hrossakaup? Þetta gæti verið atriði í nýlegum sjónvarpsþætti um forsætisráðherrann. Ég þekki ekki neitt til innan Miðflokksins, hef aldrei kosið hann og á ekki von á því að það breytist en þetta mál lyktar af mikilli spillingu og hræðslu við borgarfulltrúann Vigdísi Hauksdóttur, jafnvel er einhver keimur af kvenfyrirlitningu í þessu máli? Vigdís er áberandi klár og fær kona og hefur staðið sig vel í borgarmálunum, hún er drottning á vettvangi stjórnmálanna og hún segir jú að hún muni ekki sækjast eftir sæti í stjórn flokksins eftir það sem á undan er gengið.
„Ég ætla bara að sinna borginni vel hér eftir sem hingað til og þarf þá ekki að hafa áhyggjur af flokksstarfinu. Það er bara fínt, það eru aðrir sem taka við því,“ segir Vigdís í samtali við fréttastofu.
En þegar skákmaður hefur fórnað drottningunni, þá er staða hans ekki góð og ég reikna með að svo verði einnig í þessu tilfelli. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni en ef ég man rétt, var Vigdís Hauksdóttir með mun fleiri atkvæði í kosningum en formaður flokksins.