Viðreisn er tekin fram úr Samfylkingunni samkvæmt nýrri skoðanakönnun Prósents sem greint var frá í Spursmálum á Mbl.is í dag. Viðreisn mælist með 22,0 prósenta fylgi en Samfylkingin 18,3 prósent. – Flokkur fólksins stærri en Sjálfstæðisflokkurinn
Í könnun Maskínu sem var birt í gær mældist Viðreisn með 20,9 prósent en Samfylkingin var stærst með 22,7 prósent.
Samkvæmt könnuninni, fengi Viðreisn 17 þingsæti og Samfylkingin 12. Miðflokkurinn fengi fimm þingmenn kjörna og Flokkur fólksins átta. Sjálfstæðisflokkurinn myndi aðeins eiga sjö fulltrúa á þingi og Píratar og Sósíalistar sitt hvora fjóra. Samkvæmt könnuninni, næðu hvorki Framsóknarflokkurinn né Vinstri græn á þing.
Miðflokkurinn mælist með 13,5 prósent og Flokkur fólksins 12,5 prósentum. Miðflokkurinn tapar tveimur prósent frá síðustu könnun Prósents en Flokkur fólksins bætir við sig rúmlega prósenti. Miðflokkurinn mælist hér litlu stærri en í könnun Maskínu sem birtist í gær en Flokkur fólksins er tæplega þremur prósentustigum stærri en í þeirri könnun.
Stjórnarflokkarnir mælast minni en nokkru sinni fyrr. Aðeins einn þeirra væri öruggur um sæti á þingi samkvæmt þessu.
Sjálfstæðisflokkurinn fengi samkvæmt könnuninni aðeins 11,5 prósenta fylgi og væri fimmti stærsti flokkur landsins. Flokkurinn hefur aldrei mælst minni. Hann mældist með 12,0 prósent í könnun Prósents fyrir viku og 12,3 prósent fyrir tveimur vikum en hefur mælst með tveimur til fimm prósentustigum meira í könnunum annarra fyrirtækja.
Framsóknarmenn gætu ekki treyst því, miðað við þessa könnun, að ná manni inn á þing. Flokkurinn mælist með 4,4 prósent sem duga ekki til að fá uppbótarþingmenn.