Takmarkanir á skólahaldi verða rýmkaðar frá gildandi reglum samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Breytingarnar leiða meðal annars til þess að mögulegt verður að bjóða upp á staðnám í öllum framhaldsskólum, einnig skólum með áfangakerfi. Á háskólastigi verður heimilt að hafa allt að 50 manns saman í rými en blöndun milli hópa er óheimil. Reglugerðin gildir til 28. febrúar en með fyrirvara um breytingar ef þörf krefur.
Helstu breytingar:
Leikskólar: Heimilt verður að hafa 20 starfsmenn saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra reglu innandyra ber þeim að nota grímur.
Grunnskólar: Heimilt verður að hafa 20 starfsmenn saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra reglu innandyra ber þeim að nota grímur. Í sameiginlegum rýmum, m.a. mötuneytum verður heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun, að því gefnu að starfsfólk noti grímur. Þessar reglur gilda einnig um frístundaheimili, skipulagt íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarf og um störf í félagsmiðstöðvum.
Framhaldsskólar: Heimilt verður að hafa samtals 30 nemendur og starfsmenn saman í rými. Blöndun nemenda milli hópa er heimil. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu ber nemendum og starfsfólki að nota grímu. Sömu reglur gilda um lýðskóla, ungmennahús og framhaldsfræðslu.
Háskólar: Heimilt verður að hafa samtals 50 nemendur og starfsmenn í hverju kennslu- eða lesrými. Blöndun milli nemendahópa er óheimil en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu ber nemendum og starfsfólki að nota grímu.
Tónlistarkennsla: Öll tónlistarkennsla barna á leik- og grunnskólaaldri er heimil samkvæmt sömu takmörkunum og gilda á hvoru skólastigi um sig. Um tónlistarkennslu eldri nemenda gilda sömu takmarkanir og í framhaldsskólum.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er bent á að á þessum tímapunkti hafi náðst sæmilega góð tök á faraldrinum en þó séu vísbendingar síðustu daga um að hann gæti verið á uppleið. Ljóst sé að staða faraldursins kunni að verða önnur við upphaf nýs skólatímabils í janúar sem geti kallað á endurskoðun á reglugerðinni. Þótt gildistími reglugerðarinnar sé frá 1. janúar – 28. febrúar er sá fyrirvari settur að breytingar kunni að verða gerðar ef þörf krefur.