Mikill verðmunur var á jólamat í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem gerð var 15. desember sl. Á jólunum gera flestir vel við sig og elda margra rétta máltíðir með dýrum hráefnum. Jólainnkaupin geta því verið kostnaðarsöm og mikill verðmunur á einstaka vörum getur orðið að háum fjárhæðum.
Fyrir þriðjung vara sem voru skoðaðar var munur á hæsta og lægsta verði á bilinu 20-40% og á þriðjungi vara fór verðmunurinn yfir 40%. Mikinn verðmun var að finna í öllum flokkum í könnuninni en mestur var hann á grænmeti og ávöxtum, kjöti og sætindum. Þannig var oft 50-100% munur á hæsta og lægsta kílóverði af ýmsu hátíðarkjöti.
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 100 tilfellum af 154 en Hagkaup oftast með hæsta verðið, í 55 tilfellum. Bónus var einnig með lægsta meðalverðið í könnuninni en Iceland var með hæsta meðalverðið.
Bónus með lægsta meðalverðið
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 100 tilfellum af 154, Fjarðarkaup næst oftast, í 19 tilfellum og Krónan í 18.
Þegar meðalverð er skoðað má raða verslunum eftir því hversu langt þær eru frá lægsta verði. Á þeim mælikvarða var Bónus með lægsta meðalverðið í könnuninni og Krónan það næst lægsta eins og sjá má á stöplaritinu hér að neðan. Nettó var með þriðja lægsta meðalverðið, en þó töluvert frá Bónus og Krónunni, en á svipuðum slóðum og Fjarðarkaup.
Iceland með hæsta meðalverðið en Hagkaup oftast með hæsta verðið
Hagkaup var oftast með hæsta verðið í könnuninni, á 56 vörum en Iceland næst oftast, á 41 vöru. Sé horft á meðalverð, var Iceland hins vegar með hæsta meðalverðið í könnuninni. Þar á eftir er Kjörbúðin, með næst hæsta meðalverðið og þriðja hæsta meðalverðið var að finna í Hagkaupum. Þrátt fyrir að Hagkaup hafi oftast verið með hæsta verðið, er meðalverð hjá Iceland í könnuninni hærra en hjá Hagkaup. Það þýðir að það er líklegast að hæsta verðið í könnuninni sé í Hagkaup. Aftur á móti er að jafnaði meiri verðmunur á Iceland en ódýrustu versluninni í könnuninni.
Hafa ber í huga að mismargar vörur voru til í hverri verslun. Í Fjarðarkaup fengust flestar vörur, 149 af 154 en í Kjörbúðinni fengust fæstar vörur, 99. Til samanburðar fengust 123 vörur í Bónus, 136 í Hagkaup og 121 vara í Iceland.
1.795 kr. munur á kílóverði af hangikjötslæri og 710 kr. verðmunur á stórri dós af Quality Street konfekti
Munur á hæsta og lægsta kílóverði af úrbeinuðum birkireyktum hangikjötsframparti frá SS var 51% eða 1.520 kr. Hæst var verðið í Nettó, 4.499 kr. en lægst í Bónus, 2.979 kr. Verðmunurinn á úrbeinuðu birkireyktu hangikjötslæri frá sama framleiðanda var enn meiri, 45% eða 1.795 kr. Lægst var verðið í Bónus, 3.995 kr./kg. en hæst hjá Heimkaup, 5.790 kr./kg. Þá var 57% eða 401 kr. verðmunur á Ora jólasíld. Hæst var verðið var í Iceland, 1.099 kr. en lægst í Fjarðarkaupum, 698 kr.
Hamborgarhryggur hefur árum saman verið vinsælasti jólamatur Íslendinga. Mikill munur var á hæsta og lægsta kílóverði á hamborgarhrygg óháð vörumerki og gerð, 42% eða 560 kr. Lægsta verðið var í Nettó og Kjörbúðinni, 1.338 kr. en afsláttur var af vörunni í báðum verslunum. Hæsta verðið var í Fjarðarkaupum, 1.898 kr./kg. Einnig var mikill munur á kílóverði af KEA hamborgarhrygg m. beini, 39% eða 717 kr. Hæst var verðið í Fjarðarkaupum 2.576 kr./kg en lægst í Bónus, 1.859 kr./kg. Ef tveggja kílóa hryggur er keyptur gerir það 1.434 kr. verðmun.
Þá var 124% munur á hæsta og lægsta kílóverði af frosnum kalkúni. Verðið var lægst í Krónunni, 893 kr. en hæst hjá Heimkaupum, 1.999 kr.
Sem dæmi um verðmun á grænmeti má nefna 178% mun á kílóverði á rauðrófum, 117% verðmun á rauðkáli og 100% á Iceberg kálhaus. Þá var 102% munur á hæsta og lægsta kílóverði af jarðaberjum, 190% á bláberjum og 90% verðmunur á klementínum milli verslana.
Mikill verðmunur var á ýmsu konfekti og öðrum sætindum en þar má nefna 27% eða 710 kr. verðmun á 2 kg dós af Quality Street. Lægst var verðið í Bónus, 2.589 kr. en hæst var verðið í Hagkaup, 3.299 kr. Þá var 39% eða 504 kr. verðmunur á 400 gr. af fylltum molum frá Lindu, 71% verðmunur á Toblerone og 52% verðmunur á ís ársins frá Kjörís.
Tafla með öllum verðum (pdf)
Um könnunina
Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt þær eru frá þeirri verslun sem er með lægsta verðið.
Í könnuninni var hilluverð á 154 vörum skráð en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Sendingarkostnaður getur bæst við heildarverð hjá netverslunum.
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Smáratorgi, Krónunni Granda, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Smáralind, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.