Vörur í Prís eru 4% ódýrari en í Bónus að meðaltali og einstakir vöruflokkar eru allt að 12% ódýrari samkvæmt athugun sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi um helgina. Rúmlega 500 vörur sem seldar eru í báðum verslununum voru bornar saman og var verð jafnt á einni vöru, 25% lægra í Bónus á fjórum vörum og 0,2-48% lægra í Prís á 509 vörum.
Mestu munar á heimilisbrauði
Stærsti verðmunurinn var á stóru heimilisbrauði Myllunnar, sem er tæplega helmingi ódýrara í Prís en í Bónus. Sá mikli munur skýrir hvers vegna verðbil milli Prís og Bónus er að meðaltali mest í flokknum brauð, eða tæp 12%. Aðrir flokkar sem eru umtalsvert ódýrari í Prís en Bónus eru sælgæti og snakk (7,9%), kaffi (7,8%) og gos (6,4%).
Þær fjórar vörur sem eru ódýrari í Bónus eru allar sósur frá Blå Bland – Aioli, grísk sósa, mexíkósk sósa og bernaise sósa. Þær kostuðu allar 298kr í Bónus en 399kr í Prís.
Prís er enn ódýrasta verslunin í reglulegum samanburði verðlagseftirlitsins og hefur verið það frá opnun. Verð þar var í janúar að meðaltali 1,93% yfir lægsta verði, en í Bónus að meðaltali 3,81% yfir lægsta verði.
Fjórar lágvöruverðsverslanir – Prís langlægst
Prís sker sig úr og er, líkt og við opnun, nokkru undir verði annarra lágvöruverðsverslana. Sé miðað við að lágvöruverðsverslanir séu að meðaltali innan 10% frá lægsta verði, þá telja þær Prís, Bónus, Krónuna og Nettó.
Þegar skoðaðar eru þær 280 vörur sem fundust hjá öllum fjórum sést að Prís er 0,2% yfir lægsta verði að meðaltali en Bónus, Krónan og Nettó nær hvert öðru en Prís, milli 4,5-6,9% yfir lægsta verði að meðaltali.