Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að frá og með föstudeginum 25. febrúar verði öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum vegna heimsfaraldurs COVID-19 aflétt, jafnt innanlands og á landamærunum. Þar með falla brott allar reglur um takmarkanir á samkomum og skólahaldi og einnig krafa um einangrun þeirra sem sýkjast af COVID-19. Heilbrigðisráðherra kynnti ákvörðun sína á fundi ríkisstjórnar í dag sem byggist á tillögum sóttvarnalæknis til ráðherra um afléttingar. „Við getum sannarlega glaðst á þessum tímamótum en ég hvet fólk engu að síður til að fara varlega, gæta að persónubundnum sóttvörnum og halda sig til hlés finni það fyrir einkennum“ segir heilbrigðisráðherra.
Sóttvarnalæknir rekur í minnisblaði til ráðherra hvernig faraldurinn hefur þróast undanfarið. Daglega hafa greinst á milli 2.100 og 2.800 smit en alvarleg veikindi hafa aftur á móti ekki aukist að sama skapi. Útbreidd smit valdi þó miklu álagi á stofnunum. Inniliggjandi sjúklingum sem greinast með COVID-19 hefur fjölgað, sama máli gegnir um íbúa á hjúkrunarheimilum og veikindi og fjarvistir starfsfólks vegna COVID-19 hafa falið í sér miklar áskoranir við að halda úti óskertri starfsemi.
Að mati sóttvarnalæknis er víðtækt samfélagslegt ónæmi gegn COVID-19 helsta leiðin út úr faraldrinum, eða allt að 80%. Til að ná því þurfi sem flestir að smitast af veirunni þar sem bóluefnin dugi ekki til, þótt þau veiti góða vernd gegn alvarlegum veikindum. Um 110.000 manns hafa greinst með COVID-19 en áætlað er út frá mótefnamælingum að annar eins fjöldi einstaklinga hafi smitast án greiningar. Að þessu gefnu telur sóttvarnalæknir að miðað við svipaðan fjölda daglegra smita og undanfarið náist 80% markmiðið seinni hlutann í mars. Vegna mikillar útbreiðslu smita og þar með ónæmis í samfélaginu telji sóttvarnalæknir skynsamlegt að aflétta sóttvarnaaðgerðum samtímis innanlands og á landamærum. Stjórnvöld þurfi þó að vera reiðubúin að innleiða sóttvarnaaðgerðir á landamærum hratt, ef ný og hættuleg afbrigði veirunnar komi fram erlendis.
Fyrstu reglugerðir heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum og skólastarfi vegna heimsfaraldurs COVID-19 voru settar fyrir tæpum tveimur árum með gildistöku 16. mars 2020. Frá þeim tíma hefur heilbrigðisráðherra sett 166 reglugerðir og auglýsingar um margvíslegar ráðstafanir vegna COVID-19.
- Minnisblað sóttvarnalæknis um afléttingu opinberra sóttvarnaaðgerða innanlands vegna COVID-19, dags. 22.02.2022
- Minnisblað sóttvarnalæknir um sóttvarnaaðgerðir á landamærum vegna COVID-19, dags. 22.02.2022