Skilaboð til heimilanna
Ástandið er fordæmalaust. Það hefur verið kvartað yfir ofnotkun á þessu orði “fordæmalaust” en það er því miður ekkert annað orð sem nær betur yfir það ástand sem blasir við öllum heiminum í dag.
Margir eru hræddir, ekki aðeins við Covid-19 heldur líka áhrif veirunnar á efnahaginn og þá um leið hag heimilanna. Það eru ekki nema 12 ár frá bankahruninu og þúsundir heimila glíma enn við afleiðingar þess, þannig að þessi ótti er bæði raunverulegur og skiljanlegur.
Án þess að hafa öll svör, því þau hefur engin, ákvað ég samt að skrifa nokkrar línur og láta ykkur vita af því að það er verið að berjast fyrir málstað heimilanna og að það sé ástæða til bjartsýni hvað það varðar.
Í óvissu eins og nú er uppi er það allra versta að upplifa sig einan og vita ekki hvað tekur við. Auk þess er hætt við að gömul sár og slæmar minningar frá síðasta hruni opnist og ýfist upp, þannig að ég vona að með því að halda ykkur upplýstum og gefa ykkur sýn okkar á það sem er gerast, geti hjálpað og gefið ykkur von.
Jákvæð teikn á lofti
Aðstæður og ástæður eru allt aðrar núna en þær voru í hruninu 2008.
Í fyrsta lagi er þetta hrun ekki bönkunum að kenna og það er ekki bundið við Ísland. Nú er um að ræða alheimsfaraldur sem skekur öll þjóðfélög þannig að nú taka allir saman höndum til að berjast gegn afleiðingunum, innan hvers lands fyrir sig sem og á alheimsvísu.
Í öðru lagi er Ísland betur í stakk búið en 2008 til að takast á við áfall sem þetta og í betri stöðu en margar aðrar þjóðir.
Í þriðja lagi höfum við séð merki um samstöðu með heimilunum frá t.d. bönkum og leigufélögum sem bjóða “greiðsluhlé”. Hjá félagsmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna og víðar úti í þjóðfélaginu er gríðarlegt vantraust gagnvart bönkunum sem myndi lagast mikið ef samtökunum yrði hleypt að borðinu fyrir hönd heimila landsins. En þakka skal það sem vel er gert, og fyrir þá sem verða illa úti getur þetta útspil bankanna skipt sköpum, hverjir svo sem eftirmálarnir verða. Hagsmunasamtökin munu fylgjast vel með því þegar þar að kemur.
Í fjórða lagi er ríkisstjórnin að kynna aðgerðir fyrir atvinnulífið og félagsmálaráðherra búinn að kynna frumvarp sem tryggir fólki sem verður fyrir skerðingu á starfshlutfalli að minnsta kosti 80% af fyrri tekjum sínum. Þetta skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir heimilin og afkomu þeirra.
Hvað eru Hagsmunasamtök heimilanna að gera?
Í síðustu viku sendu Hagsmunasamtök heimilanna frá sér áskorun til ríkisstjórnarinnar um að muna eftir heimilunum. Áskorunin var send í kjölfar blaðamannafundar þar sem ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar en minntist ekki einu orði á heimili landsins.
Í áskoruninni lögðum við áherslu á að þak yrði sett á vísitölu verðtryggingar auk þess sem við kröfðumst þess að fá aðkomu að því “víðtæka samráði” sem farið hefði fram, því það virtist einskorðast við hagsmunagæslu fjármálafyrirtækja (SFF) og atvinnurekendur (SA).
Það er óhætt að segja að þessi áskorun hafi haft áhrif því margir hafa siglt í kjölfarið og krafist þaks eða frystingar á verðtrygginguna. Auk þess eru heimilin núna alltaf nefnd á öllum fréttamannafundum og yfirlýsingum stjórnvalda sem hagsmunaaðilar.
Þetta er mjög jákvætt og til marks um að áskorunin hafði áhrif en betur má ef duga skal.
Þegar forystufólk ríkisstjórnarinnar hefur minnst á heimilin er það alltaf í samhengi við aðgerðir til handa fyrirtækjum og þær aðgerðir eru engan veginn nægar. Það verður að huga sérstaklega að hagsmunum heimilanna, t.d. með frystingu verðtryggingar auk þess sem tryggja verður að ekki ein einasta fjölskylda missi heimili sitt í hendur fjármálafyrirtækja vegna áhrifa Covid-19.
Á þessari viku frá því áskorun okkar var send, höfum við ekki enn þá fengið boð um aðkomu að þessu “víðtæka samráði” en erum að berjast fyrir því núna.
Miðvikudaginn 18. mars sendum við bréf til ríkisstjórnarinnar og alþingismanna með yfirskriftinni “Heimilin eru grunnstoðir samfélagsins”. Í því segir m.a.
„Á undanförnum dögum hafa margir málsmetandi aðilar tekið undir með Hagsmunasamtökunum en ekkert hefur heyrst frá ríkisstjórninni um hagsmuni heimilinna, nema þá í samhengi við hagsmuni fyrirtækja. Það eru engin “eylönd” í þessu ástandi og hagsmunir okkar allra eru samtvinnaðir á ótal vegu þannig að hagsmunir atvinnulífsins eru að sjálfsögðu líka hagsmunir heimilanna.
En það má alls ekki ekki gleymast núna eins og oft áður, að það eru heimilin sem bera uppi hagkerfið og skarist hagsmunir þeirra og fjármálafyrirtækja, verða hagsmunir heimilanna að vera hafðir í fyrirrúmi því þau eru undirstaða alls hagkerfisins.
Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að Stjórnarskráin er samin fyrir einstaklinga og heimili þeirra en ekki til að verja fjármálafyrirtækin.“
Einnig bendum við á í bréfinu að það sé hreinlega brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að ekki sé haft samráð við fulltrúa heimilanna til jafns á við fulltrúa fjármálafyrirtækja.
Þetta er aðeins það sem við getum upplýst ykkur um að svo stöddu, en við sitjum ekki auðum höndum.
Þarf öflugri aðgerðir?
Það má alltaf deila um leiðir og aðferðir. Við hjá HH höfum vilja til að koma að þessu í nafni samstöðu og bjóða fram aðstoð okkar, í stað þess að vera með “hnefann á lofti”.
Innan samtakanna er til staðar gríðarleg þekking á réttindum neytenda á fjármálamarkaði og þeim leiðum sem virka eða virka ekki. Það má fullyrða að hún sé hvergi meiri á landinu en innan okkar vébanda og ótrúlegt ef stjórnvöld ætla ekki að nýta sér það.
Samtökin hafa skapað sér gott orðspor fyrir að vera málefnaleg og hugsa í lausnum. Jú við getum svo sannarlega verið hvassyrt en við erum þó alltaf málefnaleg.
Hvort ráðist verður í harðari aðgerðir ræðst mikið til af þeim viðbrögðum sem við fáum við bréfi okkar frá því í gær og hvort okkur verði hleypt “að borðinu”.
En við verðum líka að hafa í huga að þetta eru fordæmalausir tímar þar sem er verið að slökkva elda um leið og þeir kvikna. Í þannig ástandi eiga allir nóg með “verkefni dagsins” á meðan efnahagslegar afleiðingar munu koma fram síðar.
Núna er það í algjörum forgangi hjá stjórnvöldum að hefta útbreiðslu veirunnar og sjá til þess að atvinnulífið gangi. Við verðum að virða það og treysta því að okkar tími muni koma, þó við séum ekki efst á forgangslista stjórnvalda eins og er.
Við erum samt að þrýsta og já, við viljum samt fá sama aðgang og aðrir að samráði við stjórnvöld. Ef stjórnvöld hafa tíma til að hafa samráð við hagsmunaverði fjármálafyrirtækja (SFF), þá verða þau líka að gefa sér tíma til samráðs við hagsmunaverði heimilanna.
Er ástæða til bjartsýni?
Við getum að sjálfsögðu ekki fullyrt neitt um það frekar en aðrir, en bjartsýni er betra veganesti en svartsýni og með hana að vopni eru okkur fleiri vegir færir.
Aðstæður eru aðrar en þær voru í bankahruninu 2008 sem er okkur öllum í svo fersku minni og við verðum að muna að þá var engin sem talaði máli heimilanna í landinu.
Núna eru Hagsmunasamtök heimilanna til og þau standa vaktina fyrir heimilin.
Árið 2008 stóð verkalýðsforystan með ASÍ í broddi fylkingar gegn heimilunum. Í verkalýðsforystunni hafa átt sér stað miklar breytingar og þar er núna fólk sem áttar sig á skaðsemi verðtryggingarinnar fyrir heimilin í landinu og að þau þurfi að verja með öllum ráðum. Ég held að ekki sé á neinn hallað þó ég nefni sérstaklega þá Ragnar Þór Ingólfsson formann VR og Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness í þessu sambandi.
Ég ætla líka að leyfa mér að trúa því að stjórnvöld hafi lært sína lexíu á undanförnum árum og falli ekki í sömu gryfjurnar og þáverandi stjórnvöld gerðu.
Auk þess veit ég að heimilin eiga öfluga málssvara innan ríkisstjórnarinnar sem ég hef fulla trú á að láti til sín taka fyrir heimilin í landinu.
Þannig að hvað varðar hagsmuni heimilanna tel ég ástæðu til bjartsýni.
En betur má ef duga skal. Það þarf að kalla Hagsmunasamtök heimilanna að borðinu og ríkisstjórnin þarf að fullvissa heimilinn um að hagsmuna þeirra verði gætt og að þak verði sett á verðtrygginguna, til að slá á óvissuna og vekja von.
Heimilin þurfa fullvissu og von
Nú eru tímar samstöðu. Stjórnvöld eru að gera það sem í þeirra valdi stendur til að mýkja efnahagsáhrif veirunnar. Við getum haft mismunandi skoðanir á aðgerðum þeirra og viljað að meira sé að gert, hjá því verður aldrei komist.
Það sem ég vil fyrst og fremst fá frá ríkisstjórninni núna er fullvissa fyrir heimilin í landinu um að þeirra hagsmuna verði gætt í hvívetna.
Að því yrðu Hagsmunasamtök heimilanna að koma.
Það verður ekki lögð nógu mikil áhersla á að heimilin verði að eiga sína fulltrúa við borðið, þar sem Samtök fjármálafyrirtækja eiga þegar vís nokkur sæti.
Öll eigum við heimili, í hvað mynd sem það er, og núna standa Hagsmunasamtök heimilanna og margir innan verkalýðshreyfingarinnar vaktina fyrir heimilin í landinu.
Hagsmuna heimilanna er gætt á þessum fordæmalausu tímum. Við skulum því leyfa okkur að vera bjartsýn og halda í vonina til að fleyta okkur yfir þá óvissu sem framundan er.
Með von um réttlæti og góða framtíð,
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
formaður Hagsmunasamtaka heimilanna