Í nótt nálguðust hitaskil landið úr austri. Fremst í skilunum er úrkoman ýmist snjókoma eða slydda og sem dæmi má nefna að í veðurathugun nú kl. 6 var snjókoma bæði á Egilsstöðum og Dalatanga. Einnig mun snjóa um tíma á norðanverðu landinu eftir því sem skilin færast vestur á bóginn, sérílagi á fjallvegum. Sunnan heiða fellur úrkoman í dag sem rigning. Vindáttin í dag er austlæg, strekkingur nokkuð víða, en allhvass með suðurströndinni.
Áfram er útlit fyrir austanátt á morgun, þó hægari vindur en í dag. Hann hangir þurr að mestu norðaustantil, en í öðrum landshlutum má búast við vætu.
Á fimmtudag er áfram spáð austanátt, víða á bilinu 8-13 m/s, en 13-18 með suðurströndinni. Margir myndu eflaust vilja hafa rólegri vind á sumardaginn fyrsta. Góðu fréttirnar eru þær að vel ætti að sjást til sólar um tíma á öllu landinu. Hitinn verður eins og best gerist á þessum degi, ætti að ná kringum 15 stig í mörgum landshlutum, svalara þó með austurströndinni þar sem andar beint af hafi. Að lokum ber að taka fram að útlit er fyrir að það fari að rigna á sunnanverðu landinu að kvöldi fimmtudags.
Veðurhorfur á landinu
Austan og norðaustan 10-18 m/s, en hægari NA-til. Víða rigning og hiti 3 til 13 stig, hlýjast S-lands.
Austan og suðaustan 5-13 á morgun með vætu af og til, en þurrt á NA- og A-landi. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast NA-lands.
Spá gerð: 23.04.2019 09:47. Gildir til: 25.04.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti):
Austan 13-18 m/s með suðurströndinni, annars 8-13. Víða bjartviðri, en þokubakkar austast. Hiti 10 til 17 stig, en svalara á Austfjörðum.
Á föstudag:
Austan 8-13 m/s og rigning, einkum SA-lands. Hiti 6 til 14 stig.
Á laugardag:
Austlæg átt og milt veður. Rigning með köflum, en úrkomulítið á S- og V-landi.
Á sunnudag og mánudag:
Austanátt, skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast V-lands.
Spá gerð: 23.04.2019 08:11. Gildir til: 30.04.2019 12:00.