Vegna þeirra óvenjulegu aðstæðna sem nú ríkja í þjóðfélaginu, og um heim allan, hafa kvikmyndahúsin hér á landi þurft að loka dyrum sínum til að mæta þeim kröfum sem yfirvöld hafa gert um samkomubann. Kvikmyndahús um allan heim verða, eins og margur iðnaður, fyrir gífurlegu tjóni þar sem heimsbyggðin öll er hvött til að vera ekki á stöðum þar sem fólk kemur saman. Þá er ljóst að þó svo að samkomubanni verði aflétt á komandi vikum og mánuðum er langt í að kvikmyndahús geti boðið upp á sama sætafjölda og var í boði fyrir faraldurinn.
Nú hefur ríkisstjórnin og ráðuneyti boðað aðgerðapakka 2 þar sem fram kemur m.a. að þeir aðilar sem hafa þurft að loka vegna samkomubanns verði styrktir um 2,4 milljónir. Því miður ganga þær aðgerðir ekki nógu langt að okkar mati enda ljóst að sú upphæð hrekkur skammt þegar kvikmyndahúsin hafa tapað á annað hundrað milljónum í aðgangstekjur á þeim fjórum vikum sem þau hafa þurft að hafa lokað (og þá er sala veitinga undanskilin). Meira þarf því að koma til. Það þarf ekki endilega að vera í formi styrkja því til greina kemur að grípa til aðgerða sem mundu hjálpa kvikmyndahúsum þegar eðlileg starfsemi hefst að nýju og teljast frekar til sanngirnissjónarmiða en aðgerðapakka.
Hér á landi hafa miðar í kvikmyndahús og myndefnisleigur (VOD – Video on Demand) verið í hærra þrepi virðisaukaskatts, sem er 24%, auk þess sem lagt er 1% STEF-gjald á hvern seldan miða í kvikmyndahúsum. 25% skattur er því lagður á hvern bíómiða, sem er einn hæsti skattur sem lagður er á bíómiða í heiminum. Bækur, tónlist og áskrift að sjónvarpsstöðvum eða streymisveitum (S-VOD – Subscription on Demand) eru hins vegar í neðra þrepi virðisaukaskatts, sem FRÍSK telur einstaklega ósanngjarnt. Sá sem horfir á sjónvarpsstöð heima hjá sér í samkomubanni borgar því 11% virðisaukaskatt fyrir áskriftina á meðan sá sem leigir hjá myndefnisleigu eða fer í kvikmyndahús borgar 24%.
Í kjölfar þess skaða sem kvikmyndahús verða fyrir þessa dagana og í fyrirsjáanlegri framtíð vill FRÍSK hvetja yfirvöld til að breyta þessu sem fyrst. Það er verulegt hagsmunamál fyrir aðildarfélög FRÍSK, sem mörg hver eru atvinnuveitendur fjölda fólks, að gætt sé jafnræðis við skattheimtu á menningarstarfsemi og að skattheimtan sé óháð því í hvaða formi myndefnis er neytt.
Hinn nýi aðgerðapakki felur líka í sér styrki til fjölmiðla, sem er vel. Fjölmiðlar og sjónvarpsstöðvar eiga undir högg að sækja þegar tekjur af auglýsingasölu hefur hrunið, þó svo að einhverjir sjái aukningu í áskriftarsölu á móti.
Rétt er að benda á að félagsmönnum FRÍSK er lögum samkvæmt skylt að talsetja og texta allt efni sem þeir senda út, sýna og gefa út og þeir hafa því afar mikilvægu hlutverki að gegna í því að viðhalda og styrkja notkun íslenskrar tungu. Sambærileg skylda hvílir ekki á erlendum efnis- og fjölmiðlaveitum, sem fer sífellt fjölgandi.
Kostnaður félagsmanna FRÍSK við talsetningu og textun er í kringum 500 millj. kr. á ári hverju. Í núverandi rekstrarumhverfi er sá kostnaður svo þungur baggi að hann skerðir rekstrargrundvöll félagsmanna umtalsvert og setur félagsmenn í erfiða stöðu í sífellt harðnandi samkeppni við erlenda aðila. Að mati FRÍSK mæla sterk rök með því að hið opinbera styðji við bakið á þeim sem bera texta- og talsetningarskyldu samkvæmt ákvæðum fjölmiðlalaga. Ein aðgerð sem mundi bæta úr þessu væri að stofnaður yrði sérstakur sjóður til að styðja við talsetningu og textun á erlendu efni. Í þennan sjóð geta svo aðilar með starfsstöðvar hér á landi sótt um styrki til að talsetja og texta efni.
Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) eru hagsmunasamtök rétthafa myndefnis, kvikmyndahúsa, myndefnisleiga og helstu sjónvarpsstöðva landsins.