
Frjálsar og vistvænar strandveiðar smábáta
,,Við eigum að gefa handfæraveiðar frjálsar—fiskinn á diskinn. Íslenska þjóðin á 1000 milljarða í gjaldeyrisvaraforða sem þarf að spara og nota einvörðungu fyrir nauðsynjavöru næstu 36 mánuðina, eins og lyfjum.
Ég tel að þessar aðgerðir myndu fleyta þjóðinni vel af stað í að komast eins greiðlega og unnt er í gegnum þá efnahagserfiðleika sem fylgja veirunni.“ Segir Guðmundur Franklín Jónsson forsetaframbjóðandi í tilkynningu sinni um framboðið sitt til forseta Íslands í dag.
Bændur og matvælaframleiðsla þeirra mjög mikilvæg
Við höfum öll hag af því að gæta að náttúrunni og við höfum öll hag af því að fólkið okkar hafi atvinnu. Þetta væri fyrsta skrefið í þeirri aðgerðaáætlun sem ég legg til en næsta skref væri að nýta þjóðareignina, Landsvirkjun, til að lækka raforkuverð til heimila, bænda og íslensks iðnaðar.
Mikilvægi bændastéttarinnar hefur lengi verið vanmetið en það er einmitt hún sem mun sjá okkur fyrir mat ef upp blossar heimsfaraldur, eins og núna, stríð eða aðrar hamfarir sem gera innflutning torveldan. Allt of lengi hefur hallað á þessa mikilvægu stétt með íþyngjandi milligöngumönnum, háu raforkuverði og öðrum afarkostum sem ríkið hefur stuðlað að með lagasetningum og einkennilegum rekstri ríkisfyrirtækja.
Þessu þarf að breyta og þessu þarf að breyta strax. Efla þarf búskap og ræktun svo starfandi bændur geti aukið framleiðslu sína og jafnvel hafið útflutning sem og að venjuleg nýliðun geti átt sér stað í stéttinni. Þarna myndu einnig skapast störf og við myndum búa í haginn fyrir framtíðina.