,,Ég ákvað að skrifa þessa bók því ég taldi mikilvægt að almenningur hefði aðgengi að réttum upplýsingum um sögu félagsins“
,,Þá er það orðið formlega opinbert að ég hef að undanförnu unnið að bók um ris og fall flugfélagsins WOW air. Bókin kemur út í næstu viku og hef ég í samstarfi við Forlagið boðað til hádegisfundar í Norræna-húsinu þann 28. maí þar sem fjallað verður um efni bókarinnar. Þar verður hún fyrst aðgengileg lesendum.
Ég ákvað að skrifa þessa bók því ég taldi mikilvægt að almenningur hefði aðgengi að réttum upplýsingum um sögu félagsins og að á einum stað væri hægt að nálgast mikilvægar upplýsingar um aðdragandann að því að félagið fór á hausinn.
Í bókinni er mikið magn nýrra upplýsinga sem ekki hafa komið fram áður. Þær varpa nýju ljósi á síðustu dagana í lífi félagsins.“ Segir Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og höfundur bókarinnar.
WOW – Ris og fall flugfélags
FRÉTTATILKYNNING – Vaka-Helgafell.
Hvernig varð WOW gjaldþrota?
Þriðjudaginn 28. maí gefur Vaka-Helgafell út bókina WOW – Ris og fall flugfélags eftir Stefán Einar Stefánsson, viðskiptafréttastjóra á Morgunblaðinu.
Þar varpar Stefán ljósi á áður óþekktar ástæður þess að flugfélagið WOW varð gjaldþrota en einnig hvernig Skúla Mogensen, stofnanda þess, tókst á örfáum árum að byggja upp flugfélag sem hafði áður en yfir lauk flutt tíu milljónir farþega yfir Atlantshafið.
Stefán hefur unnið ötullega að ritun bókarinnar síðastliðna mánuði og sankað að sér áður óbirtum upplýsingum sem varpa nýju ljósi á uppgang og fall félagsins.
Það er ekki ofsögum sagt að WOW hafði mótandi áhrif á íslenskt samfélag í þau sjö ár sem félagið starfaði og bókin á því erindi til allra þeirra sem vilja fræðast meira um eitt merkilegasta viðskiptaævintýri Íslandssögunnar.
Forlagið og Stefán standa fyrir hádegisfyrirlestri í Norræna húsinu sama dag og bókin kemur út, þriðjudaginn 28. maí, þar sem Stefán kynnir helstu efnistök bókarinnar ásamt því sem Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, flytur erindi um áhrif WOW á uppgang og seinna meir samdrátt ferðaþjónustunnar.
Hægt er að melda sig á viðburðinn hér -> bit.ly/WOW-ris-og-fall-fyrirlestur
Vaka-Helgafell gefur út.