Meinað að nýta farmiðann
Kona hafði samband við Neytendasamtökin og sagði farir sínar ekki sléttar. Hún hafði keypt flug á milli Akureyrar og Reykjavíkur og bókað bæði flugin í einu. Svo illa vildi til að konan missti af fluginu suður. Hún þurfti því að kaupa nýjan farmiða og flaug suður seinna sama dag.
Þegar komið var að heimferð mætti konan tímanlega á Reykjavíkurflugvöll en þar var henni sagt að hún væri ekki á lista yfir farþega. Konan taldi að hér hlyti að vera misskilningur á ferð þar sem hún hafði greitt fyrir flugið og var með staðfestingu á því. Henni var þá tjáð að þar sem hún hafði ekki mætt í fyrri legg flugsins (Akureyri-Reykjavík) félli seinni leggur niður. Þar sem vélin var fullbókuð og konan þurfti að komast til síns heima var henni nauðugur einn kostur að leigja bíl á eigin kostnað og keyra norður.
Konan var eðlilega ekki sátt við þetta framferði og leitaði til Neytendasamtakanna sem höfðu samband við Icelandair og gerðu kröfu um endurgreiðslu á farmiðanum. Icelandair ákvað að endurgreiða konunni fargjaldið en eftir stendur að þessir furðulegu viðskiptahættir kostuðu hana margfalt lengri ferðatíma en ella. Þá er athyglisvert að með því að taka flugmiðann eignarnámi tókst flugfélaginu að selja sama miðann tvisvar.
Nú gætu lesendur spurt sig hvernig á þessu geti staðið. Hér er um að ræða svokallaða No-show reglu (mætingarskyldu) sem sum flugfélög beita og gengur í stuttu máli út á að mæti farþegi ekki í fyrri legg flugferðar, fellir flugfélagið niður alla aðra leggi ferðarinnar án þess að endurgreiða farmiðana. Vísa flugfélög í skilmála sína, sem þau semja sjálf, þessu til réttlætingar.
Neytendasamtökin hafa frá árinu 2017 barist fyrir afnámi mætingarskyldu flugfélaga. Þessi regla tíðkast ekki í neinum öðrum viðskiptum og er ólögleg að mati Neytendasamtakanna, enda í hæsta máta ósanngjörn. Í Evrópu hafa neytendasamtök barist mjög gegn No-show reglunni með þeim rökum að þessi einhliða skilmáli sé ósanngjarn og standist ekki lög. Hægt og sígandi hefur árangur náðst og dómar fallið gegn þessum skilmálum.
Neytendasamtökin hvetja Icelandair til að láta af þessum viðskiptaháttum hið fyrsta.