Það er löngu orðið ljóst að húsnæðiskerfið á Íslandi er ónýtt. Bankar, greiðslumatskerfi og einhliða skráningar hjá Creditinfo hafa lamað möguleika fjölda fólks til að komast inn á fasteignamarkaðinn. Þessi „excel skjöl“ þeirra segja oftast ekkert til um raunverulega greiðslugetu heimila.

Við sjáum það svart á hvítu: tugir þúsunda leigjenda greiða 300–500 þúsund krónur í leigu á mánuði.
Samt segja bankarnir að þetta fólk geti ekki greitt sömu upphæð af eigin húsnæði. Þetta er fáránlegt og sýnir að lánakerfið á Íslandi er gersamlega úrelt og ónýtt og þá er ekki einu sinni minnst á okurvextina og verðbæturnar sem eru naglar í kistu lánþega.
Kaupleiguíbúðir – raunveruleg lausn
Lausnin blasir við: Ríkið á að ganga á undan, stofna eigið leigufélag og byggja 50.000 íbúðir eins hratt og mögulegt er. Þetta þarf ekki að vera draumsýn – þetta er framkvæmanlegt ef pólitískur vilji er til staðar.
Íbúðirnar ættu að vera boðnar sem kaupleiguíbúðir, þar sem leiga eða afborganir renna beint inn í eignamyndun leigjandans. Ríkið getur veitt 70 til 100% lán með greiðslubyrði frá 100 til 300 þúsund krónum á mánuði, eftir greiðslugetu hvers og eins. Þá væri raunverulegt húsnæðisöryggi tryggt.
Núverandi kerfi er fátækragildra

Í dag hagnast leigufélög gríðarlega á gölluðu kerfi sem heldur almenningi í eilífri fátækragildru. Fólk er fleytt milli leiguhúsnæðis allt sitt líf án þess að eignast nokkuð. Þetta er ekki bara óréttlátt , þetta er félagslegt brot gagnvart almenningi.
Ríkið getur brotið upp þennan vítahring. Með stórfelldu átakinu í byggingu kaupleiguíbúða væri hægt að tryggja tugum þúsunda fjölskyldna framtíð, stöðugleika og eignamyndun.
Við getum ekki lengur setið hjá á meðan bankarnir og leigufélögin græða á baki almennings. Það er tími til kominn að ríkið axli ábyrgð og tryggi almenningi það sem ætti að vera sjálfsögð mannréttindi: öruggt og viðráðanlegt húsnæði.

