Tillaga um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni á vinnustöðum hefur verið birti í Samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Umsagnarfrestur er til 11 nóvember 2019
Leitað er umsagnar um fullgildingu íslenskra stjórnvalda á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar númer 190 um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni, sem afgreidd var á 108. Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf í júní 2019. Samþykktin felur í sér viðurkenningu á því að ofbeldi og áreitni á vinnustöðum getur falið í sér mannréttindabrot eða misnotkun. Það sé ógn við jafnrétti og óviðunandi og ósamrýmanlegt mannsæmandi vinnu.
Í samþykktinni felst einnig áhersla á mikilvægi þess að vinnumenning byggist á gagnkvæmri virðingu og mannlegri reisn. Samþykktinni er ætlað að vernda launafólk og aðra einstaklinga á vinnumarkaði. Fullgilding hennar felur í sér skuldbindingu aðildarríkis að gripa til forvarna og aðgerða gegn áreitni og ofbeldi. Þetta skal gera í samræmi við landslög og aðstæður í hverju ríki og í samráði við heildarsamtök launafólks og atvinnurekendur.