Milljarða endurgreiðslur vegna ólögmætra búsetuskerðinga Tryggingastofnunar velta á pólitískri ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, svaraði ekki ítrekuðum spurningum um málið frá tveimur þingmönnum á Alþingi í dag
Brotið á fólki árum saman
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, viðurkenndi á Alþingi í dag, að ólögmætar skerðingar Tryggingastofnunar, vegna búsetu, hefðu staðið yfir „í mjög langan tíma“. Hann vék sér samt undan því að svara skýrum spurningum um þær upphæðir sem hafðar hafa verið af örorkulífeyrisþegum í jafnvel allt að aldarfjórðung. Áratugur er frá því að ÖBÍ gerði fyrst athugasemdir við málið, og birti Umboðsmaður Alþingis álit í sumar, þar sem tekið er að öllu leyti undir mál ÖBÍ.
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“
Ráðuneytið hefur viðurkennt að Umboðsmaður og ÖBÍ hafi rétt fyrir sér og að Tryggingastofnun hafi með ólögmætum hætti skert tekjur öryrkja á grundvelli búsetu um árabil. Stofnuninni hefur verið falið að bæta úr. Álitið umboðsmanns birtist í lok júní og því virðist sem afar hægt gangi að leiðrétta þessar ólögmætu skerðingar.
Hvað er sanngjarnt og siðlegt?
Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á að rétt sé að fólki verði bættur skaðinn af allri þessari framkvæmd. Það er hin eðlilega, sanngjarna og siðlega leið. Taki ríkisstjórnin hins vegar pólitíska ákvörðun um að bera fyrir sig fyrningu í málinu, þá er það ótvíræður skilningur Öryrkjabandalags Íslands, að ríkinu beri að bæta fólki upp tekjumissinn tíu ár aftur í tímann.
„Ætlar ríkið þá að segja: Jess! Okkur tókst að ná sex árum af þeim sem fátækastir eru hér á landi?“
Skylda stjórnvalda skýr
„Íslenska ríkið hefur ólöglega skert tekjulægsta hópinn á Íslandi um marga milljarða. Ráðuneytið hefur tekið undir túlkun umboðsmanns Alþingis og hefur nú það hlutverk að leiðrétta þetta brot og bæta þeim öryrkjum sem hafa orðið fyrir þessum ólögmætu skerðingum skaðann. Sumir þessa einstaklinga hafa þurft að lifa í fjötrum fátæktar í mörg ár með tekjur sem ná varla upp í matarkostnað, hvað þá húsnæðiskostnað og allt annað sem til þarf til að lifa mannsæmandi lífi.“
Það er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að bera fyrir sig fyrningu.
Þetta sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar Alþingis þegar hún beindi fyrirspurn til Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins og félags- og barnamálaráðherra.
Náðum sex árum af fátæklingum
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, beindi einnig spurningu til sama ráðherra:
„Þessi gjörningur hefur staðið yfir í tíu ár, frá 1 maí 2009. Núna kemur ríkið og segir: Heyrðu, við ætlum bara að bæta fjórum árum við. Bara fjórum. Ætlar ríkið þá að segja: Jess! Okkur tókst að ná sex árum af þeim sem fátækastir eru hér á landi?“
„Sumir þessa einstaklinga hafa þurft að lifa í fjötrum fátæktar í mörg ár.“
Til að gera langa sögu stutta, þá sagði ráðherrann að málin væru þung og flókin. Hann svaraði ekki einföldum spurningum þingmanna um hvenær fólk myndi byrja að fá greiðslur samkvæmt eðlilegri framkvæmd á reglum um búsetu, né hvenær byrjað yrði að greiða til baka það sem haft var af fólki með ólögmætum hætti.
Pólitísk ákvörðun
Lykilspurning beggja þingmanna sneri að þeirri pólitísku ákvörðun um endurgreiðslur ríkisins.
„Við höfum borgað sanngirnisbætur vegna þess að brotið hefur verið á fötluðum einstaklingum og veiku fólki. Það er sanngirni í því að borga allt til baka,“ sagði Guðmundur Ingi. Þetta er rétt hjá honum.
„Ráðherrann talar um fjögur ár. Komið hefur í ljós að þar er verið að bera fyrir sig fyrningu, að þetta sé fyrnt og þess vegna sé ekki farið tíu ár aftur í tímann eins og hagsmunasamtök fara fram á. Er ráðherra skylt á einhvern hátt að bera fyrir sig fyrningu eða er þetta bara ákvörðun? Er það pólitísk ákvörðun eða skylda? Hvers vegna er þetta ákveðið?“ sagði Halldóra Mogensen.
Fyrning verður ekki sjálfkrafa, rétt eins og Guðmundur Ingi benti á með sanngirnisbæturnar. Stjórnvöldum ber engin skylda til þess að bera fyrir sig fyrningu. Það er pólitísk ákvörðun. Það er sjálfstæð ákvörðun stjórnvalda hvort þau ætla að ganga fram af sanngirni eða siðleysi í þessu máli.
Tómlegt svar ráðherrans
En hverju svaraði ráðherrann? Ekki neitt. Hann hins vegar fullyrti þetta og skýrði ekki frekar:
„Óhætt er að segja að það er alveg rétt að það sem unnið er með þar eru fjögur ár. Þar er stuðst við almenn lög.“
„Það er sanngirni í því að borga allt til baka.“
Eins og áður var bent á, er það pólitísk ákvörðun að bera fyrir sig fyrningu. Undan því getur ráðherrann ekki vikist og heldur ekki ríkisstjórnin. Í öðru lagi, ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, forsætis- og jafnréttismálaráðherra, tekur þessa pólitísku ákvörðun, þá er það skilningur ÖBÍ á regluverkinu að fyrningartíminn sé tíu ár.
Enn þarf að bíða
Sem fyrr segir eru liðnir ansi margir mánuðir frá því að Umboðsmaður Alþingis birti álit sitt. Ekki svaraði ráðherrann því til í þinginu í dag hvenær vænta mætti leiðréttingar aftur í tímann, né heldur hvenær byrjað verði að greiða út í samræmi við það álit sem nú liggur fyrir og stjórnvöld hafa viðurkennt.
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Núverandi áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör,“ sagði Katrín Jakobsdóttir þegar hún var þingmaður í stjórnarandstöðu. Hún er nú í forsæti ríkisstjórnar en fátækt fólk þarf enn að bíða.