Verðkönnun Verðlagseftirlits ASÍ á tryggingum sýnir að mikill munur getur verið á verði á tryggingum og eru neytendur hvattir til að fá tilboð frá ólíkum félögum. Könnunin sýnir að verðlagning tryggingafélaganna er misjöfn eftir tryggingategundum og að minni munur sé á tilboðum tryggingafélaganna ef þau innihalda margar ólíkar tryggingar.
Fjórir einstaklingar leituðu eftir tilboðum í „tryggingapakka“ hjá tryggingafélögunum fjórum þar sem leitað var eftir tilboðum í sambærilegar tryggingar og viðkomandi var þegar með. Þá óskuðu tveir einstaklingar eftir tilboðum í bílatryggingar eingöngu.
Vörður var með lægsta tilboð í alla stærri tryggingapakka sem innihéldu margar tryggingar. Mest var 37% eða 88.904 kr. munur á hæsta og lægsta tilboði tryggingafélaganna í tryggingapakka einstaklings sem innihélt m.a. bílatryggingu, fjölskyldu- og heimilistryggingu og húseigendatryggingu. Vörður var með lægsta tilboðið en TM það hæsta. Vörður var með lægsta tilboðið í alla fjóra tryggingapakkana.
Mest var 51% eða 126.545 kr. verðmunur á hæsta og lægsta tilboði tryggingafélaganna í lögbundnar ökutækjatryggingar auk bílrúðu- og kaskótryggingar, þar sem VÍS var með lægsta tilboðið en TM með hæsta tilboðið. Einhver munur getur verið á tryggingum milli tryggingafélaganna vegna ólíkra skilmála og mun á tryggingafjárhæðum sem voru þó stilltar af svo þær væru sem næst því að vera eins.
Verð á tryggingum hækkar þrátt fyrir hagnað og háar arðgreiðslur
Verð á tryggingum hefur hækkað umfram hækkanir á vísitölu neysluverðs á síðustu tveimur árum þrátt fyrir mikinn hagnað tryggingafélaganna og háar arðgreiðslur. Á einu ári, frá desember 2020 til desember 2021 hækkuðu tryggingar um 7,4% og bílatryggingar um 8,3% samanborið við 5,1% hækkun á vísitölu neysluverðs. Á tveimur árum nemur verðhækkun á tryggingum 10,9% borið saman við 8,9% hækkun vísitölu neysluverðs á sama tíma.
Verðlagseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að óska eftir tilboðum í sínar tryggingar með reglulegu millibili og leita þannig leiða til að lækka útgjöld í tryggingar sem geta verið há. Samkvæmt lögum geta neytendur sagt upp tryggingum sínum með eins mánaðar fyrirvara vilji þeir skipta um tryggingafélag.
51% verðmunur á ökutækjatryggingum
Tveir einstaklingar sem hafa ekki átt bíl og hafa því enga tjónasögu fengu tilboð í ökutækjatryggingar hjá tryggingafélögunum fjórum. Annar var 20 ára og fékk tilboð í ökutækjatryggingu (m. bílrúðutryggingu og kaskótryggingu) fyrir smábíl, 2017 árgerð. Hinn var 30 ára og fékk tilboð í sömu tryggingar fyrir 2014 árgerð af annarri tegund af smábíl. Hvorugur einstaklingurinn hefur átt bíl áður.
Meiri verðmunur var á tilboðinu sem yngri einstaklingurinn fékk (bíll 1 á mynd), 51% eða 126.545 kr. þar sem TM var með hæsta tilboðið en VÍS með það lægsta.
Munur á hæsta og lægsta tilboði í tryggingu fyrir sama bíl án kaskótryggingar var 44%. Töluvert minni munur, 8% eða 14.696 kr. munur var á því tilboði sem eldri einstaklingurinn fékk (bíll 2 á mynd). Í því tilviki var Sjóvá með hæsta tilboðið en Vörður það lægsta.
Ef kaskótrygging er tekin úr tilboðinu er tilboð VÍS 1,1% lægra en Varðar. Upplýsingar um mun á tryggingum og forsendur má finna neðst í fréttinni.
Vörður með lægsta verðið á öllum tryggingapökkum
Fjórir einstaklingar, einn í viðskiptum við hvert tryggingafélag, voru fengnir til að óska eftir tilboði í sínar tryggingar hjá öllum tryggingafélögunum. Fólkið var á ólíkum aldri, þó öll komin yfir þrítugt og misjafnt var hverskonar tryggingar þau voru var með. Enginn var með nýlega eða mikla tjónasögu.
Óskað var eftir tilboði í sambærilegar tryggingar og það var þegar með hjá sínu tryggingafélagi og voru tryggingafjárhæðir og upphæðir sjálfsábyrgðar samræmdar eins og möguleiki var á. Til að koma í veg fyrir rekjanleika tilboðanna verða einungis birtar tölur um verðmun á tilboðunum en ekki nákvæmt verð á tilboðunum.
Upphæð tilboðanna var á bilinu 300-500 þúsund krónur en eins og eðlilegt er verð á þeim tilboðum sem innihéldu flestar tryggingar almennt hærri. Ökutækjatryggingar eru alltaf dýrastar og vega því þyngst en þar á eftir koma húseigendatryggingar, brunatryggingar og fjölskyldu- og heimilistryggingar. Tryggingapakkarnir í könnuninni innihéldu allir bíla-, fjölskyldu- og heimilistryggingar, flestir húseigendatryggingar og brunatryggingar og sumir persónutryggingar, barnatryggingar eða gæludýratryggingar.
Vörður var með lægstu tilboðin í tryggingapakka allra fjögurra einstaklinganna en TM og VÍS voru með hæstu tilboðin í tveimur tilfellum hvort um sig. Tilboð frá Sjóvá voru næst lægst í þremur tilfellum af fjórum en allir fjórir einstaklingarnir sem óskuðu eftir tilboði í sína tryggingapakka voru með tryggingar sem gefa þeim aðgang að Stofni, vildarþjónustu Sjóvá og fá því betri kjör en ella af tilteknum tryggingum sem endurspeglast í tilboðunum. Félagar í Stofni fá einnig endurgreiðslu af tilteknum tryggingum ef þeir eru tjónlausir í lok greiðslutímabils sem er ekki tekin með í samanburði á tilboðunum. Ef endurgreiðslan væri tekin með í reikninginn væru tilboð Sjóvá lægri en tilboð Varðar í þremur tilfellum af fjórum.
TM og VÍS með hæstu tilboðin í tryggingapakka en TM með hærra meðalverð
Mesti munur á tilboðum í tryggingapakka var 37% eða 88.904 kr. (pakki 4) þar sem TM var með hæsta tilboð en Vörður það lægsta. Næst mesti munur á hæsta og lægsta tilboði var 20% eða 59.615 kr. munur í tryggingapakka 2 þar sem TM var einnig með hæsta verðið og Vörður það lægsta. Þrátt fyrir að VÍS hafi verið með hæstu tilboðin í tveimur tilfellum voru tilboð TM að meðaltali lengra frá lægsta verði en VÍS. Þannig var TM að meðaltali 17,7% frá lægsta verði, VÍS 11,2% og Sjóvá 4,9% en Vörður 0% þar sem öll tilboð Varðar voru lægst.
Fjölskyldu- og heimilistryggingar og bílatryggingar ódýrastar hjá Verði en barna- og brunatryggingar ódýrastar hjá Sjóvá
Tilboðin fjögur gefa til kynna að verðlagningu tryggingafélaganna á mismunandi tryggingategundum sé ólíkt háttað á mismunandi tryggingum. Hverskonar tryggingar fólk er með eða hvernig samsetning trygginga er hjá fólki getur því haft áhrif á hvar lægsta verðið er að fá. Leitast var eftir að bera saman sömu tryggingar þar sem tryggingafjárhæðir væru eins sem og eigin ábyrgð þar sem það á við. Í einhverjum tilfellum var munur á tryggingum tryggingafélaganna sem lesa má nánar um neðst í fréttinni.
Ef litið er til verðs á mismunandi tryggingategundum má sjá að Vörður sker sig úr með lægsta meðalverð á fjölskyldu- og heimilistryggingum sem var 25-30% lægra en hjá hinum þremur tryggingafélögunum. Vörður er einnig með lægsta meðalverðið á bílatryggingum (m. kaskó) en ökutækjatryggingar og fjölskyldu- og heimilistryggingar eru meðal dýrustu trygginganna og vegur það því þungt í heildarútkomunni. Þá var meðalverð á barnatryggingum næst lægst hjá Verði, 13,5% hærra en hjá Sjóvá sem var með lægsta meðalverðið. Meðalverð á brunatryggingum var einnig næst lægst hjá Verði eða 9,2% hærra en lægsta meðalverð sem var hjá Sjóvá.
Ökutækjatryggingar dýrastar hjá TM en húseigendatryggingar og fjölskyldu- og heimilistryggingar dýrastar hjá VÍS
Húseigendatryggingar geta verið dýrar og vegið þungt í tryggingaútgjöldum. Sjóvá var með lægsta meðalverð á húseigendatryggingum og lægsta verðið á tveimur af þremur húseigendatryggingum. Sjóvá var einnig með lægsta meðalverðið á öllum gæludýratryggingum og barnatryggingum og lægsta verð á slíkum tryggingum í öllum tilfellum.
VÍS var í öllum tilfellum með hæsta verð á húseigendatryggingum og með hæsta meðalverð sem var 20% hærra en lægsta meðalverð. VÍS var einnig með hæsta meðalverð á fjölskyldu- og heimilistryggingum, 30% frá lægsta meðalverði og með hæsta tilboð í þær tryggingar í þremur tilfellum af fjórum. Þá var meðalverð á barnatryggingum hjá VÍS 55% hærra en lægsta meðalverð og meðalverð á gæludýratryggingum 54% hærra.
Verð á brunatryggingum húseigna var í öllum tilfellum lægst hjá TM sem og verð á líftryggingum sem voru tvær talsins. TM var hins vegar með hæsta meðalverðið á ökutækjatryggingum (m. kaskó) sem var 29,2% yfir lægsta meðalverði. Mest var 46% munur á tilboði TM í bílatryggingar og lægsta tilboði og verð á þremur bílatryggingum af fjórum yfir 25% frá lægsta verði. TM var einnig með hæsta meðalverð á barnatryggingum sem var 99% hærra en lægsta verð á og hæst í öllum tilfellum. Þá var meðalverð á gæludýratryggingum hjá TM 45% hærra en lægsta meðalverð. Vörður var hins vegar í öllum tilfellum með hæsta verð á gæludýratryggingum og var meðalverð á slíkum tryggingum hjá félaginu 102% hærra en lægsta meðalverð.
Kostnaður við greiðsludreifingu hæstur hjá TM og VÍS
Þar sem tryggingar vega þungt í útgjöldum heimila má áætla að mikill fjöldi tryggingataka kjósi að dreifa greiðslum trygginganna yfir lengra tímabil þar sem tryggingapakkinn getur hlaupið á hundruðum þúsunda á ársgrundvelli. Verðlagseftirlitið tók því saman álag tryggingafélaganna við greiðsludreifingu. Misjafnt er hvernig greiðsludreifingu tryggingafélaganna er háttað en ljóst er að greiðsludreifing hjá þeim getur verið kostnaðarsöm. Sem dæmi nemur vaxtakostnaður við 12 mánaða greiðsludreifingu á 300.000 kr. tryggingapakka með 7% vöxtum, 9.625 kr. á ári. en 5.679 kr. ef vextirnir eru 4,13%.
Um könnunina
Leitað var tilboða hjá eftirfarandi tryggingafélögum; Sjóvá, TM, VÍS og Verði. Tilboð þessi miðast við verð án afsláttarkjara sem standa til boða hjá sumum tryggingafélögum og geta falist í fyrsta árs afslætti eða endurgreiðslu verði engin tjón á samningstímabili.
Tekið skal fram að tryggingapakkarnir verða aldrei 100% sambærilegir þar sem skilmálar trygginganna eru mismunandi milli félaga. Hins vegar varleitast eftir því að hafa tilboðin sem allra sambærilegust. Óskað var eftir sambærilegum tryggingum miðað við þær tryggingar sem viðkomandi var þegar með hjá sínu tryggingafélagi og tryggingafjárhæðirnar voru stilltar af þannig að þær væru þær sömu eða sem næst því. Þannig voru upphæðir innbústrygginga, þ.e. verðmæti innbús í fjölskyldu- og heimilistryggingum einstaklinganna alls staðar þær sömu. Tryggingafjárhæðir líf- og sjúkdómatrygginga voru einnig stilltar af þannig að þær eru þær sömu hjá öllum tryggingafélögunum.
Ekki var hægt að stilla upp tryggingafjárhæðum á barnatryggingum þannig að þær væru nákvæmlega þær sömu á milli félaga þar sem sum félög bjóða aðeins eina tegund barnatrygginga á meðan önnur bjóða upp á fleiri tegundir. Grunnvátryggingafjárhæð örorkubóta barnatrygginga voru 7,2 milljónir hjá Sjóvá, um 12 milljónir hjá TM (Barnatrygging TM2), 10 milljónir hjá VÍS og 10,4 milljónir hjá Verði (Barnatrygging 1).
Þó að verð vegi þungt þegar tekin er ákvörðun um val á tryggingafélagi þarf líka að skoða fjárhæð sjálfsábyrgðar en það er sú upphæð sem tryggingataki þarf að reiða af hendi vegna tjóns. Í einhverjum tilfellum var smávægilegur munur á sjálfsábyrgð á ábyrgðartryggingum ökutækja, bílrúðutryggingum og kaskótryggingum milli tryggingafélaga en hann verður ekki útlistaður hér þar sem tryggingafélögin gátu ekki orðið við óskum um sambærilega upphæð sjálfsábyrgðar. Slíkt fyrirkomulag er eitt af því sem gerir neytendum erfiðara fyrir að bera saman verð og gæði trygginga. Þá skal tekið fram að iðgjöld hjá tryggingafélögunum geta hækkað við endurnýjun í kjölfar tjóns.
Þær breytur sem hafa áhrif á verð á tryggingum eru fjölmargar og það getur því verið erfitt og tímafrekt að óska eftir tilboðum í tryggingar og bera saman verð og gæði vegna flókinna og ólíkra skilmála tryggingafélaganna. Í ofanálag bjóða þau upp á ýmiskonar afslætti og vildarkjör til að laða til sín viðskiptavini sem eykur flækjustigið enn meira. Verðlagseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að láta slíkt flækjustig ekki koma í veg fyrir að þeir leiti tilboða í sínar tryggingar.
Í þessari könnun eru eingöngu borin saman verð á tryggingapökkum en ekki lagt mat á gæði trygginganna sem slíkra.