Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra segir að sér hugnist ekki að lögbann verði sett á verkfall kennara ef til allsherjarverkfalls kemur. „Ég vil virða verkfallsréttinn. Þannig að það horfir ekki vel við mér. Ég tel ekki tímabært að ræða neitt slíkt að svo stöddu,“ segir hún í viðtali við ríkisútvarpið.
Hún segir sína aðkomu að samningaviðræðum vera enga, þær séu í höndum samninganefnda. „Mitt snýr meira að starfsumhverfi kennara og við erum að vinna að því hörðum höndum í menntamálaráðuneytinu að bæta það eins og við getum,“ segir Ásthildur Lóa.
Að mati Ásthildar Lóu þurfa deiluaðilar að mætast í sínum kröfum. „Ég held að báðir aðilar þurfi kannski að draga svolítið úr sínum kröfum. Báðir aðilar þurfa að vera tilbúnir til þess að ná saman. Og ég bara tel að við viljum ekki sjá verkföll hérna.
Ég tel að það þurfi að koma í veg fyrir þau, vegna þess að við sjáum alveg hvaða áhrif það myndi hafa á þjóðfélagið. Kennarar eru framlínustarfsmenn og það skiptir gríðarlegu máli að þeir séu sáttir, allavega sæmilega sáttir við sín kjör,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra í viðtali við ríkisútvarpið