Ragga nagli er sálfræðingur með áherslu á heilsuvenjur og einkaþjálfari. Hún skrifar mjög oft áhugaverða pistla um mál tengd heilsu, hreyfingu, samskiptum ofl. Hér að neðan er einn þeirra sem við mælum með:
Fýlustjórnun, þagnarbindindi og hunsun eru gereyðingarvopnin sem er beitt hjá þeim sem kunna ekki uppbyggileg samskipti, og er ætlað að innræta hjá okkur skömm, sektarkennd og samviskubiti.
-

Ragga Nagli skrifar Að andvarpa, hnussa og dæsa þegar hlutirnir fara ekki eftir eigin höfði.
Að labba út úr samræðum þegar ekki er fengið sínu framgengt.
Að þegja heilu dagana eftir rifrildi. - Beita samviskubitsvæðingu til að rífa niður mörk.
Fara í fórnarlambshlutverkið til að stýra hlutum í sína átt.
Ná í gamla ágreininga úr Excel skjalinu og nota sem vopn.
Þríhyrninga þig með að draga þriðja eða fjórða aðila sem leikmun í að ná sínu fram
Uppbyggileg samskipti eru hinsvegar setningar eins og:
„Ég myndi vilja…..“
„Ég kæri mig ekki um….“
„Ég vil biðja þig að…. “
Orðin sem við notum í samskiptum skipta öllu máli í því hvort við eigum uppbyggileg samskipti, hvernig við vinnum saman og hvernig andrúmsloft við sköpum. Við viljum ekki ásaka, gagnrýna eða ráðast á hina manneskjuna með fullyrðingum.
Við viljum tala út frá okkur sjálfum og eigin upplifun.
„mér finnst….“ „ég tel….“ „það er mín upplifun….“
Við viljum halda okkur við málefnið en ekki hjóla í manninn.
Við viljum einblína á nútíð og framtíð en ekki hanga eins og rolla á girðingarstaur í fortíðinni.
Við viljum hlusta en ekki grípa fram í.
Við viljum heyra og skilja sjónarmið hins með því að setja þau í eigin orð.
Við viljum spyrja opinna spurninga sem byrja á „hvað, hvernig, hvers vegna“ til að skilja hinn aðilann betur.
Við viljum leysa vandamálið í sameiningu með að koma með sameiginlegar lausnir.
-Lærum að anda í kviðinn áður en við bregðumst við.
-Lærum tilfinningastjórnun og tölum af skynsemi frekar.
-Lærum að ýta á pásu þegar við finnum að við viljum grípa í gömul óheilbrigð mynstur.
-Lærum að nota nýja uppbyggilegri samskiptatækni


