Ræða Sóleigar Önnu Jónsdóttur í Hungurgöngu á Austurvelli:
,,Kæra fólk, í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi var viðtal við hana Zsófíu, Eflingarfélaga og trúnaðarmann á einu af hóteli borgarinnar þar sem hún vinnur við að þrífa, starf sem augljóslega verður að vinna ætli hótelið að geta tekið við gestum, ætli hóteleigendurnir að geta grætt á rekstrinum. En þrátt fyrir að sinna starfi sem er augljóslega algjört grundvallarstarf hefur hún í ráðstöfunartekjur á mánuði 220-240 þúsund krónur.
Í bransa þar sem stjórarnir hafa grætt á tá og fingri er þetta engu að síður staðreynd málsins: Fólkið sem vinnur vinnuna sem stjórarnir græða á fær laun sem eru langt undir því sem þarf til að láta enda ná saman. Og þetta er auðvitað ekkert einsdæmi; tveggja áratuga starfsaldur á leikskóla reykjavíkurborgar, skemmtilegustu lúxusbragga og pálmatrjáaborgar í heimi, skilar þér í ráðstöfunartekjur 280.000 krónur.
Hverskonar kerfi er það eiginlega þar sem það skiptir meira máli hver kostnaðurinn er við að öll hafi það gott, að öll fái að blómstra á sínum eigin forsendum, að öll fái að njóta þess eina lífs sem við fáum úthlutað en hver kostnaðurinn er við að kremja fólk, við að halda fólki niðri, við að gera það sem engin manneskja má gera annari; að kúga og arðræna. Og af hverju erum við á þeim stað að „orðsporsáhættan“ fyrir Ísland er sú að héðan fréttist að fólk ætli í verkföll en ekki að héðan fréttist að fullvinnandi fólk geti ekki látið hlutina ganga upp, að fullvinnandi fólk geti ekki tryggt efnahagslegt öryggi sitt, að fullvinnandi fólk hrekist um á leigumarkaði, að fullvinnandi fólk geti ekki látið sig dreyma um að eignast eigið húsnæði en þurfi að sjá á eftir stórum hluta af ráðstöfunartekjum sínum í vasann á leigusölum?
Að líta á að öllum sé tryggð góð og mannsæmandi afkoma sem einhverja agalega fórn, einhvern hræðilegan harmleik um upplausn og hamfarir er einfaldlega það klikkaðasta sem ég get hugsað mér. Það er ekki harmleikur að gera allt sem hægt er til að fá að búa í friðsömu samfélagi, samfélagi félagslegs stöðugleika. Að tryggja öllum góða og mannsæmandi afkomu er þvert á móti gjöf, gjöfin sem við færum hvort öðru og okkur sjálfum af því að við viljum lifa og starfa hlið við hlið með öðru fólki í sátt og samlyndi, af því við viljum að öll börn eigi góða og áhyggjulausa tilveru, af því að við vitum að ekkert grefur eins undan heilsu og vellíðan fólks en basl, fátækt og áhyggjur, af því að því að mannleg tilvera er erfið, af því að veikindi, áföll og sorg eru partur af mannlegri tilveru, af því að þú veist aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér, og af þeirri einföldu og sammannlegu ástæðu er fáránlegt, nei mikli meira en fáránlegt, ógeðslegt, að kerfið sem við erum látin búa inn í skuli ýkja og magna og framleiða erfiðleika, veikindi, uppgjöf og vanlíðan.
Kæra fólk. Við skulum hætta að biðla til þeirra sem fara með völdin í íslensku samfélagi. Við skulum hætt að bíða eftir því að þau sem fara með völdin, pólitísk og efnahagsleg, fari að sjá okkur og hlusta á okkur. Við skulum hætta að bíða eftir því að þeim þóknist að færa okkur eitthvað smotterí, eitthvað pínkupons, á meðan þau sjálf færa sjálfum sér allt sem þeim sýnist, slá aldrei af yfirgengilegum kröfum sínum um að mikið, meira, mest! Í stað þess að biðla og bíða skulum við berjast! Við skulum standa saman og berjast fyrir því að enginn hér þurfi að líða skort, við skulum standa saman og berjast, hlið við hlið, verkafólk og öryrkjar, fólk fætt hér og fólk flutt hingað. Við erum mörg, við erum mikilvæg og ef að við sínum samstöðu, ef að við stöndum saman þá getum við öðlast það sem við þurfum til að getað hætt að bíða og biðla, við getum öðlast pólitísk áhrif og völd til að einfaldlega byrja að breyta því sem við viljum breyta, byrja að búa hér til það samfélag sem við sjálf viljum búa í!
Við skulum standa saman og berjast vegna þess að við höfum séð í gegnum blekkingarnar og bullið, við höfum séð í gegnum blekkingarnar og bullið vegna þess að við höfum reynt á eigin skinni, í eigin lífi að efnahagskerfið sem við höfum verið látin lifa inn í er ógeðslegt, það skapar og viðheldur stéttaskiptingu, misskiptingu, fátækt og vanlíðan. Kerfið sem við búum inní borgar hótelþernunni 220.000, leikskólakonunni 280.000, kerfið sem við búum inn í leyfir manneskjunni sem getur ekki stundað vinnu, manneskjunni sem er ekki svo „heppin“ að geta selt vinnuaflið sitt á útsölumarkaði samræmdrar láglaunastefnu að fá heilar 248.000 fyrir skatt til að lifa af, í einhverri viðbjóðslegri og sadískri samfélagslegri tilraun.
Þrátt fyrir að fámennur hópur ríkra karla góli á okkur dag eftir dag að kerfið sé náttúrulögmál vitum við alveg að það er ekki rétt. Það er mannanna verk og því er það sannarlega á okkar færi að breyta því. Og það er nákvæmlega það sem við ætum að gera.“ –Mynd: Spessi