Ráðuneytið neitar að svara hvaða 26 fyrirtæki fengu tæpan einn og hálfan milljarð
Í haust var kynnt af hálfu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, nýsköpunarráðherra fyrir hönd Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, svokölluð mótframlagslán Stuðnings – Kríu sem eru lán til fyrirtækja í nýsköpun. Alls sóttu 31 fyrirtæki um lán og voru 26 umsóknir samþykktar og þar sagði jafnframt ,,Alls verður 755 milljónum króna varið í fjárfestingar frá Stuðnings – Kríu í formi mótframlagslána.“ En heildaruppæð sem samþykkt var hljóðaði upp á 1,375,705,025 krónur.
Leynd hvílir yfir hvaða fyrirtæki fengu þessi lán og ber ráðuneytið fyrir sig upplýsingalög, í skoðun er að kæra það svar til Úrskurðarnefndar upplýsingamála en slíkt ferli getur jafnvel tekið nokkra mánuði. Sérfræðingur í lánamálum sem Fréttatíminn hafði samband við segir það vera undarlegt að 26 af 31 fyrirtæki sem sóttu um hafi fengið lán. ,,Yfirleitt eru 5% af þeim fyrirtækjum sem sækja um áhættulán valin úr hópi umsækjenda“
Fyrirspurn Fréttatímans og svar ráðuneytisins:
,,Í frétt ráðuneytisins kom fram að umsóknir hafi verið alls 31, þar af 26 samþykktar af mótframlagslánum Stuðnings – Kríu .
Heildarupphæð sem sótt var um: 1,680,705,025 kr. Heildaruppæð sem samþykkt var: 1,375,705,025 kr.
Upplýsingar óskast um hvaða fyrirtæki fengu lán og hversu háa fjárhæð hvert um sig og til hvaða verkefna?“
Svar Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
,,Mótframlagslánin voru ekki ríkisaðstoð heldur tímabundin fjármögnun veitt á markaðskjörum gegn mótframlagi einkafjárfesta. Fjármögnun einkafyrirtækja eru virkar fjárhagsupplýsingar sem skulu fara leynt og ekki heimilt að veita upplýsingar um skv. 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Því er ekki mögulegt að veita upplýsingar um hvaða fyrirtæki fengu lánin, um fjárhæð þeirra eða hvernig þeim var ráðstafað af fyrirtækjunum.“