Skýrsla um aðgerðir til þess að endurvekja traust og trúnað í málaflokki barnaverndar á Íslandi liggur nú fyrir. Samskipti og samstarf Barnaverndarstofu og starfsmanna barnaverndarnefnda voru til skoðunar í velferðarráðuneytinu, sem nú hefur verið skipt upp í félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, samkvæmt beiðni barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu í lok árs 2017. Í skýrslunni er að finna tillögur að verklagsreglum um samskipti.
Skýrslan var unnin af Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF). GEF er ráðuneytisstofnun sem tók til starfa 7. maí 2018. Henni er ætlað að sinna stjórnsýsluverkefnum og eftirliti á sviði félagsþjónustu sem veitt er af hálfu sveitarfélaga, opinberra stofnana eða á grundvelli samninga, auk afmarkaðs eftirlits á sviði barnaverndar.
Með bréfi félags- og jafnréttismálaráðherra, dags. 23. maí 2018, var GEF falið að framkvæma úttekt á stjórnunar- og samskiptaháttum Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda og ráðgjöf Barnaverndarstofu til starfsfólks nefndanna. Eins að formgera fagleg samskipti milli stjórnvalda málaflokksins og setja fram viðmið um skýrara verklag varðandi tilhögun samskipta.
Nokkuð skýrar línur komu fram í niðurstöðum kannana og viðtala um það sem menn töldu ýmist að betur mætti fara eða þarft væri að skýra nánar. Á grundvelli þessara niðurstaðna leggur GEF til að settar verði verklagsreglur um samskipti í fimm flokkum.
Barnaverndarstofu var gefinn kostur á að bera fram athugasemdir við skýrsluna, sem er meðfylgjandi. Þær eru birtar sem viðauki við hana sem og svar GEF við athugasemdum Barnaverndarstofu.