Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum
Verkalýðshreyfingin hefur um árabil fjallað um þá meinsemd sem misneyting og mansal á íslenskum vinnumarkaði er. Því miður hefur hreyfingin lengstum talað fyrir svo gott sem daufum eyrum. Aðgerð lögreglu þann 5. mars sl. boðar vonandi nýja tíma og aukinn þunga stjórnvalda í baráttunni gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Miðstjórn ASÍ fagnar þeim tímamótum sem aðkoma lögreglu að málinu boðar en áréttar um leið að íslensk stjórnvöld hafa allt of lengi dregið lappirnar í baráttunni gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað bent á þá dapurlegu staðreynd að aðflutt launafólk er mun líklegra til að verða fyrir brotum á vinnumarkaði en þau sem fædd eru hér á landi. Áralöng tregða stjórnvalda til að taka á brotum á vinnumarkaði gefur til kynna ákveðið skeytingarleysi gagnvart því fólki sem einkum verður fyrir þeim; aðfluttu launafólki og fólki í láglaunastörfum.
Miðstjórn ASÍ áréttar að ætlaðir þolendur í því máli sem nú er til rannsóknar eru ennþá í mjög berskjaldaðri stöðu. Um er að ræða fólk sem hefur lagt á sig miklar fjárhagslegar og sálrænar fórnir til að geta búið sér og fjölskyldum sínum trygga framtíð á Íslandi. Fólkið kom til Íslands með draum um að leggja hart að sér í vinnu og njóta ávaxta erfiðis síns. Það er umhugsunarefni að ekki hafi tekist að aðstoða þau úr þessum slæmu aðstæðum fyrr en raun ber vitni.
Vernd fyrir þolendur er ekki einungis réttlætismál og varin í ýmsum alþjóðasáttmálum sem Íslendingar hafa undirgengist. Lögregla hefur einnig bent á að það að grípa þolendur sé forsenda þess að hægt sé að ná árangri í baráttunni gegn mansali. Viðbrögð stjórnvalda í þeim málum sem upp koma um þessar mundir munu hafa veruleg áhrif á það hvernig þróun mansalsmála verður hér á landi til lengri tíma.
Miðstjórn ASÍ krefst þess að íslensk stjórnvöld eyði umsvifalaust allri mögulegri óvissu um framtíð þessara og annarra þolenda misneytingar og mansals á íslenskum vinnumarkaði.
Í kjölfarið á því máli sem nú er uppi þarf íslenskt samfélag að skoða í kjölinn hvað það er í umgjörð íslensks vinnumarkaðar sem gerir fólki með illan ásetning kleift að stunda misneytingu og mansal svo árum skiptir. Miðstjórn ASÍ áréttar að lausnirnar liggja ekki í hertri útlendingalöggjöf. Lausnirnar liggja fyrst og síðast í sterkara regluverki um vinnumarkaðinn, öflugu eftirliti og ótvíræðri vernd fyrir þolendur.
Miðstjórn ASÍ kallar eftir eftirfarandi aðgerðum án tafar:
- Stjórnvöld eyði umsvifalaust allri óvissu um framtíð ætlaðra þolenda í því máli sem nú er til rannsóknar, sérstaklega hvað varðar dvalar- og atvinnuleyfi þeirra
- Úrræði sem eiga að samhæfa þjónustu við þolendur verði styrkt til muna og til frambúðar. Þar ber helst að nefna Bjarkarhlíð
Í kjölfarið er nauðsynlegt að tryggja eftirfarandi:
- Þolendur misneytingar og mansals eigi skýra og örugga útleið úr slæmum aðstæðum
- Alvöru viðurlög séu við brotum á vinnumarkaði, stórum sem smáum.