14 milljarða ávinningur af starfsemi VIRK 2017
14,1 milljarða heildarávinningur var af starfsemi VIRK árið 2017 og ávinningur á hvern útskrifaðan einstakling var 12,6 milljónir króna samkvæmt nýrri skýrslu Talnakönnunar. Bæði heildarávinningurinn og ávinningur samfélagsins af virkni útskrifaðra einstaklinga eykst á milli ára.
Sýnt er fram á í skýrslunni að ábatinn af starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK skilar sér til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Ofan á þetta kemur svo bættur hagur einstaklinga, bæði fjárhagslegur auk þeirra lífsgæða sem felast í því að geta tekið þátt í samfélaginu.
Skýrsla Talnakönnunar verður meðal umfjöllunarefna á ársfundi VIRK 24. apríl og á 10 ára afmælisráðstefnu VIRK sem haldin verður í Hörpu föstudaginn 4. maí.
VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignastofnun sem var upphaflega stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í maí 2008. Sjóðurinn byggir á samkomulagi um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar í kjarasamningum á vinnumarkaði á árinu 2008.