Mín von er sú að um saklaust aprílgabb hafi verið að ræða
Sveitarfélög landsins hafa um langt árabil barist fyrir því að gerð yrði breyting á lögum um virðisaukaskatt í þá veru að sveitarfélög fái 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Einnig hafa sveitarfélögin óskað eftir því að breytingin tæki til virðisaukaskatts sem sveitarfélögin sannanlega greiddu vegna slíkra framkvæmda eftir að stuðningur samkvæmt lögum nr. 53/1995 féll niður árið 2009, í tíð umhverfisráðherra sem þá eins og nú kom úr röðum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Stuðningurinn sem gilti þá var um 20% af framkvæmdakostnaði sveitarfélaganna – ígildi afnáms virðisaukaskatts.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf fráveitu sveitarfélaga var varlega áætluð 60-100 milljarðar króna á núvirði árið 2017 af félagi ráðgjafarverkfræðinga og Samtökum iðnaðarins. Virðisaukaskattur af slíkum framkvæmdakostnaði er í dag um 12-20 milljarðar króna.
Aprílgabb umhverfisráðherra?
Umhverfisráðherra birti grein í Morgunblaðinu þann 1. apríl sl. undir yfirskriftinni „Ríkið styður við fráveituframkvæmdir“. Þar tilkynnti ráðherra að nú ætlaði hann að gera gangskör í fráveitumálum og um leið að efla atvinnulífið með auknum framkvæmdum og hnýtti við – „á tímum þar sem ekki væri vanþörf á“. Upphæðin sem ráðherra ætlar að leggja í púkkið til eflingar og viðspyrnu atvinnulífsins eru 200 milljónir króna á þessu ári. Til samanburðar þá voru árleg framlög ríkisins til fráveituframkvæmda sveitarfélagana á árunum 1996 til 2008 að meðaltali um 450 milljónir króna á verðlagi dagsins í dag. Lægst voru framlögin 250 milljónir króna og hæst urðu þau árið 2002 – 700 milljónir króna á núvirði.
Ráðherra tilkynnti einnig að unnið væri að nánari útfærslu stuðningsins þó Samband íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd sveitarfélaga landsins, hafi ítrekað bent á einföldustu leiðina – afnema virðisaukaskatt af fráveituframkvæmdum. Í stað þess að fara einföldu leiðina situr ráðherra nú við smíðar lagabreytingabálks með upptalningu á öllum þeim gerðum fráveituframkvæmda sem ekki verða styrkveitingahæfar, þar gengur ráðherra rösklega til verks -listinn er langur.
Enn fremur kom fram í tilkynningu ráðherra að hann muni leggja áherslu á að stuðningur ríkisins verði enn meiri á næstu árum. Upphæðin þetta árið, 200 milljónir króna, 0,2% af fjárfestingaþörfinni gefur ekki góð fyrirheit um framhaldið.
Mín von er sú að um saklaust aprílgabb hafi verið að ræða hjá ráðherranum geðþekka og að hann muni leiðrétta tilkynninguna sem fyrst. Það er aftur á móti fagnaðarefni ef rétt er, að ráðherra sé að komast til meðvitundar um að fráveitumál séu eitt mikilvægasta umhverfismál sveitarfélaga. Ég hvet því umhverfisráðherra til að halda fast í núvitund sína Ok feta veg skynsamlegra lausna á nærumhverfisvandanum.
Umhverfismál á að nálgast á grundvelli almannasjónarmiða um vernd umhverfisgæða ekki sem uppsprettu skattstofna. Ríkið á að hvetja sveitarfélögin til að vinna á nærumhverfisvandanum og standa myndarlega við bakið á þeim svo þau geti uppfyllt lagalegar skyldur sínar ásamt því að hvetja þau sérstaklega til að auka hreinsun skolps svo draga megi úr mengun vatns og sjávar hvar nær öll okkar matvælaframleiðsla á sitt upphaf og endi. Hvatinn blasir við – afnema þarf án tafar virðisaukaskatt af öllum fráveituframkvæmdum sveitarfélaga.
Höfundur: Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg,
varaformaður bæjarráðs og formaður eigna- og veitunefndar