Á fundi Velferðarvaktar 9. apríl sl. kom fram að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi lagt fram drög að frumvarpi til laga um námsgögn til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Með frumvarpinu er lagt til að börn að 18 ára aldri muni, að loknu innleiðingatímabili, eiga rétt á gjaldfrjálsum námsgögnum í leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Velferðarvaktin fagnar þessum áformum en hún hefur látið sig þessi mál varða eins og fram kemur í greinagerð með frumvarpsdrögunum en þar segir: Þá hefur m.a. Velferðarvaktin, stýrihópur sem hefur það hlutverk að fylgjast með félagslegri og fjárhagslegri stöðu einstaklinga og fjölskyldna í landinu, beint því til stjórnvalda að vinna að því að gera námsefni nemenda í framhaldsskóla gjaldfrjálst og stuðla þannig að meiri jöfnun í skólakerfinu.
Rannsóknir og tillögur á vegum Velferðarvaktar
Skólamál hafa talsvert verið til umfjöllunar í Velferðarvaktinni en hún hefur t.a.m. staðið fyrir gerð tveggja kannanna, sem rannsóknarfyrirtækið Maskína framkvæmdi, þar sem framhaldsskólanemendur og skólameistarar voru spurðir út í ýmsa þætti skólastarfsins m.a. um hvernig var að hefja námið, andlega líðan, námskostnað, vinnu meðfram námi, stuðning foreldra við nám, rafræn námsgögn, móttökuáætlanir fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, heimanám og styttingu framhaldsskólans.
Í kjölfarið sendi Velferðarvaktin tillögur til stjórnvalda. Tillögurnar voru a) aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu og að félagsráðgjöf verði bætt, b) stefnt verði að lækkun námsgagnakostnaðar nema í framhaldsskólum í skrefum, c) komið verði betur til móts við nemendur sem bera aukakostnað vegna búsetu fjarri skóla og d) þjónusta við nemendur með annað móðurmál en íslensku verði eflt.
Þá var bent á að menntun væri ein undirstaða góðra lífskjara, tryggja ætti jafnt aðgengi að námi óháð efnahag og öðrum ástæðum, fara ætti sömu leið og hin norrænu ríkin sem tryggja aðgengi fyrr allar, líka þá efnaminni. Þar væru námsgögn gjaldfrjáls.
Þá stóð Velferðarvaktin á sínum tíma fyrir könnun meðal sveitarfélaga um kostnaðarþátttöku grunnskólabarna í skólagögnum s.s. ritföngum og pappír og hvatti í framhaldinu til þess að slík kostnaðarþátttaka yrði aflögð þar sem hún samrýmist hvorki anda Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna né grunnskólalaganna . Hefur slík kostnaðarþátttaka almennt verið aflögð.