Utanríkisráðherra Íslands og Tollamálaráðherra Kína undirrituðu í dag samninga um frekari fríverslun við Kína hjá Matvælastofnun á Selfossi. Matvælastofnun hefur unnið að samningsgerðinni undanfarin fjögur ár með það að markmiði að opna markaði fyrir íslenskar afurðir. Samningarnir gera framleiðendum kleift að flytja út íslenskar fiskeldisafurðir, fiskimjöl, lýsi og ull til Kína.
Í undirritun þriggja nýrra bókana við fríverslunarsamning Íslands og Kína felst viðurkenning á heilbrigðiskröfum fyrir ofangreindar afurðir. Samið var um skilyrði til útflutnings á lambakjöti til Kína í haust.
Samningarnir eru afrakstur samstarfs Matvælastofnunar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins við yfirvöld tolla- og dýraheilbrigðismála í Kína. Útflutningur er háður skilyrðum þarlendra yfirvalda og heilbrigðisvottorði frá Matvælastofnun.