Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur hækkað stýrivexti um 1,25 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, fara því úr 7,5 prósentum í 8,75. Greint er frá ákvörðuninni í yfirlýsingu frá peningastefnunefnd Seðlabankans sem birt var 8:30. Um er að ræða þrettándu stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð.
Yfirlýsing peningastefnunefndar 24. maí 2023
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 1,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,75%.
Jafnframt hefur nefndin ákveðið að hækka fasta bindiskyldu innlánsstofnana úr 1% í 2%.
Efnahagsumsvif hafa verið kröftug það sem af er ári og samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er spáð 4,8% hagvexti á árinu í stað 2,6% í febrúar. Þar vega horfur á meiri vexti innlendrar eftirspurnar þungt en einnig er útlit fyrir kröftugri umsvif í ferðaþjónustu.
Verðbólga mældist 9,9% í apríl og jókst lítillega milli mánaða. Undirliggjandi verðbólga heldur áfram að aukast og miklar verðhækkanir mælast í sífellt stærri hluta neyslukörfunnar. Útlit er fyrir að verðbólguþrýstingur verði töluvert meiri í ár og á næsta ári en áður var gert ráð fyrir.
Verðbólguvæntingar til lengri tíma hafa jafnframt hækkað og eru vel yfir markmiði. Aukin hætta er því á að verðbólga reynist þrálát.
Í ljósi þess er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og hversu stutt er í næstu kjarasamningalotu. Horfur eru því á að hækka þurfi vexti enn meira til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið
Landsbankinn dæmdur – ,,Tugir milljarða sem talið er að bankarnir hafi oftekið“