Sirkus Íslands leggur nú lokahönd á undirbúning fyrir sýningar sumarsins, sem munu fara fram í sirkustjaldinu Jöklu í Vatnsmýri 13. – 22. júlí og við Drotningarbraut á Akureyri um Verslunarmannahelgina 3. – 5. ágúst
Um er að ræða tvær sýningar að þessu sinni, fjölskyldusýningu þar sem við fögnum tíu ára sirkusstarfsemi á Íslandi, og nýjustu útgáfu fullorðinssýningarinnar Skinnsemi. Þetta er fjórða sumarið sem Sirkus Íslands fer í ferðalag með tjaldið sitt, en árið 2014 tókst að kaupa tjaldið með hjálp landsmanna í gegnum hópfjáröflunarsíðuna Karolinafund.
Æfingar fara nú fram í fimleikasal Ármanns við Engjaveg, og munu standa stíft á milli þess sem meðlimir hópsins skemmta á hátíðum og viðburðum um allt land.
Frekari upplýsingar um sýningarnar má finna á www.sirkus.is Miðasala fyrir sýningarnar er hafin á www.tix.is
Meðlimir sirkusins eru fjölbreyttur hópur, og hafa verið að bralla ýmislegt á undanförnum misserum. Eftirfarandi sirkusfólk verður allt með í sýningum sumarsins, og hafa frá áhugaverðum uppátækjum að segja.
Jón Gunnar Sigurðsson fimleika- og sirkusmaður hefur verið að ferðast um Nýja-Sjáland með þarlendum sirkus undanfarna fimm mánuði, og er nýkominn heim til að sýna með Sirkus Íslands.
Bryndís Torfadóttir, sirkuskona og mastersnemi í lögfræði, ætlar að taka sér frí frá fyrra námi og sækja sirkusnám í Kaupmannahöfn næsta árið, þar sem hún komst inn í skólann AFUK eftir skyndiákvörðun um að fara í áheyrnarprufuna nú í vor.
Nick Candy, Harpa Lind Ingadóttir og Sindri Diego hafa séð um sirkuslistirnar í söngleiknum Slá í gegn í Þjóðleikhúsinu þennan veturinn.
Eyrún Ævarsdóttir og Jóakim Meyvant Kvaran hafa eftir útskrift frá sirkusháskóla í Rotterdam verið með annan fótinn ennþá í Hollandi, þar sem þau vinna með sjálfstæðum sirkuslistahóp að nýsirkus sýningu.