Lögreglan hafði í gærmorgun afskipti að fólksbifreið í miðborginni en skrifstofustól með hjólum var ofan á þaki bifreiðarinnar. Stóllinn var óbundinn með öllu en ökumaður hélt í stólinn með annarri hendi meðan á akstri stóð. Ökumaðurinn á von á sekt vegna málsins.
Tveir aðilar voru handteknir rétt fyrir vegna þjófnaðar á málverki í miðborginni. Báðir aðilarnir voru í annarlegu ástandi þegar þeir voru handteknir.
Laust fyrir kl.15:00 í gær varð umferðarslys í Árbæ en þar hafði ökumaður misst stjórn á ökutæki sínu með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði utan vegar. Ökuréttindi ökumanns voru afturkölluð en hann uppfyllti ekki lengur skilyrði þess að vera með ökuréttindi.
Upp úr kl. 16:00 í gær fékk lögreglan tilkynningu um að ungt barn hafi fallið út um glugga á fjölbýlishúsi. Fallhæðin var áætluð um 15 metrar. Barnið var flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar og innlagnar. Barnið er ekki með alvarleg beinbrot og innvortis meiðsli eru til skoðunar ef einhver eru, en lögregla hefur ekki frekari upplýsingar um meiðsli barnsins. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er barnið á öðru aldursári. Það var í íbúð á fjórðu hæð í austurborginni þar sem gluggi var opinn. Barnið hafi komist í upp í gluggann og dottið út.
01:31 Bifreið stöðvuð í hverfi 105 en ökumaður, 17 ára, er grunaður um að hafa ekið bifreiðinni á 126 km/klst þar sem hámarkshraði við bestu aðstæður er 60 km/klst. Skýrsla tekin af ökumanni og í kjölfarið var hann sviptur ökuréttindum. Þá voru foreldrar og barnavernd upplýst um málið.
Fremur rólegt var í morgun eftir annasama nótt. Um fimmleitið var tilkynnt um mann með rafbyssu við Austurvöll, en hann fannst ekki. Þá var í tvígang tilkynnt um aðila sem væru liggjandi á almannafæri, þreyttir eftir skemmtun næturinnar að því er tilkynnendur töldu, en í báðum tilfellum voru aðilarnir á bak og burt þegar að var komið.
Par sem hafði verið úti á lífinu í miðborginni óskaði aðstoðar lögreglu vegna manns sem hafði sýnt öðru þeirra full mikinn og ákafan áhuga, en sá mun ekki hafa linnt látum þó honum væri ítrekað bent á þessi áhugi hans væri engan veginn endurgoldinn. Virtist viðkomandi þó ekki hafa áhuga á að ræða þessi mál við lögreglu og lét sig hverfa áður en laganna verði bar að.
Óskað var aðstoðar lögreglu að heimahúsi í höfuðborginni vegna aðila sem þar væru að knýja dyra í óþökk íbúa. Voru aðilarnir farnir er lögreglu bar að, en annar aðilinn mun hafa þegið heimboð hjá einum íbúa eftir næturskemmtun í miðborginni Fljótlega fór húsráðanda þó að þykja stemningin verða „skrýtin“ og vísaði gestinum því á dyr. Hafi gesturinn þá tekið til við að knýja dyra af miklum móð og notið við það liðsinnis annars aðila, Þó það sé vissulega virðingarvert að veita náunganum hjálparhönd þegar svo ber undir þá er stundum betur heima setið en af stað farið í þeim efnum, líkt og hér virðist hafa verið raunin.
Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur þennan morguninn.