„Íslensk yfirvöld ættu að draga Eimskip til ábyrgðar fyrir brot á evrópskri úrgangslöggjöf, sem bannar útflutning á hættulegum úrgangi til þróunarlandanna. Það skyldi sótt sem sakamál af íslenskum yfirvöldum.“
Eimskipafélag Íslands er borið þungum sökum í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld en þar er Eimskipafélagið sagt hafa notað alræmdan millilið sem tekur að sér að leppa niðurrif á skipum fyrir útgerðir, til að komast fram hjá evrópskum reglum og að hafa þannig fargað tveimur risastórum gámaflutningaskipum, Laxfoss og Goðafoss, á Alang-strönd við Indland. Fram kemur að fyrirtækið GMS sem stundar milligöngu um niðurrif skipa, hafi keypti skipin af Eimskip í gegnum skúffufélög, skráð í Monróvíu, höfuðborg Líberíu, sem varð um leið heimahöfn skipanna.
Eimskip – Lífeyrissjóðirnir og Samherji
Lífeyrissjóðirnir á Íslandi eiga meirihluta hlutafjár í Eimskip en þrátt fyrir það, er það Samherjafjölskyldan, í gegnum eignarhaldsfélag sitt Samherji Holding, sem hefur ítök í félaginu. Félagið á um 30 prósent hlutafjár í Eimskip og í krafti þess eignarhlutar var Baldvin Þorsteinsson, einn stærsti hluthafi Samherja og sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, stofnanda Samherja, kjörinn stjórnarformaður og svo var Vilhelm Már Þorsteinsson ráðinn forstjóri skipafélagsins. Vilhelm er frændi Baldvins og sonur Þorsteins Vilhelmssonar fyrrum eiganda Samherja að því er kemur fram í þætti Kveiks.
Hundrað þrjátíu og sjö manns hafa látið lífið við skipaniðurrif á umræddri strönd á síðasta áratug og sýndar eru myndur af tugum slasaðra verkamanna sem vinna við frumstæðar aðstæður og í hverri viku slasast fjölmargir verkamenn. Verkamennirnir eru sagðir óttast um líf sitt en það kemur fram í viðtali við einn þeirra í innskoti frá BBC. Það er gífurleg fátækt í landinu og menn vinna án hlífðarfata og mannréttindi brotin. Oft hefur Alang-stönd verið kölluð „hættulegasti vinnustaður heims. Ekki nóg með það heldur er gríðarlega mikil mengun á svæðinu. Kveikur greinir frá því að síðast á þessu ári, var ströndinni hafnað aðkomu á evrópska listann svokallaða.
„Síðasta áratug höfum við rifið fjögur til fimm íslensk skip, sem eru stærri en 40 metrar. Fiskiskip sem koma hingað niður til Gent til endurvinnslu,“ segir Peter Wintyn, framkvæmdastjóri skipaendurvinnslustöðvarinnar Galloo í Gent og formaður Samtaka evrópskra skipaendurvinnslustöðva í viðtalinu við Kveik. Á síðustu tveimur árum hafa þrír togarar Samherja til dæmis verið rifnir hjá Galloo: Sólbakur, Snæfell og Hjalteyrin, segir ennfremur. Auk þess sem línubáturinn Krummi úr Grindavík var rifinn þar. Í haust eru farin til Gent hin ríflega hálfrar aldar gamla Örfirisey og togarinn Sturlaugur Böðvarsson.“
Laxfoss og Goðafoss í Alang – Samkvæmt heimildum Kveiks hefur beiðni um opinbera rannsókn á meintum ólöglegum flutningi og niðurrifi skipanna tveggja verið send Héraðssaksóknara
Í fjóra mánuði fylgdust blaðamenn Kveiks með því hvernig Laxfoss og Goðafoss voru smám saman skornir niður og rifnir á ströndinni í Alang með tilheyrandi mengun og slysahættu. Í rannsókn þeirra segir m.a. ,,Fá ef nokkur dæmi eru um að íslensk skip hafi áður farið þá leið sem þessi tvö fyrrum flaggskip Eimskips fóru. Aðferðin er þó þekkt og raunar sú sama og hollenska félagið Seatrade nýtti sér og var dæmt fyrir. Sérstakur milliliður keypti og flutti skipin að sömu strönd á Indlandi í báðum tilfellum. Í tilfelli Eimskips var það hið umdeilda GMS. Talsmaður þess brást opinberlega við hollenska málinu með þeim orðum að GMS teldi þann dóm engu breyta, enn væri hægt að fara „löglega fram hjá ákvæðum laganna“. Til dæmis með því að flagga skipum út úr Evrópu, eða tilkynna ekki endanlegan áfangastað skipanna fyrr en þeim hafi verið siglt út úr Evrópu.“
Ingvild Jenssen sem er í forsvari fyrir alþjóðleg félagasamtök, Shipbreaking Platform sem 18 umhverfis-, mannréttinda- og verkalýðssamtök stofnuðu árið 2006. telur engum vafa undirorpið að Eimskip hafi brotið lög með flutningi Laxfoss og Goðafoss til Indlands, þrátt fyrir að Eimskip hafi ekki átt skipin þegar þeim var siglt þangað. „Íslensk yfirvöld ættu að draga Eimskip til ábyrgðar fyrir brot á evrópskri úrgangslöggjöf, sem bannar útflutning á hættulegum úrgangi til þróunarlandanna. Það skyldi sótt sem sakamál af íslenskum yfirvöldum.“
Ingvild telur engu máli breyta að skipin hafi flaggað líberískum fána áður en þau voru flutt út úr Evrópu.
„Nei, það skiptir engu þegar úrgangslöggjöfin á í hlut. Sú staðreynd að skipin voru seld í niðurrif meðan þau voru í íslenskri höfn er það sem skiptir máli fyrir úrgangslöggjöfina. Til er önnur löggjöf eða uppbótarlöggjöf sem lýtur að skipum undir fána ESB og svo fána Íslands þar sem segir að þau skuli aðeins endurunnin í aðstöðu sem er viðurkennd af ESB.“
Samherji Holding er stærsti einstaki eigandi Eimskips. Ellefu íslenskir lífeyrissjóðir eiga þó samanlagt, vel yfir helming alls hlutafjár í Eimskipi. Þeir þrír stærstu, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi og LSR hafa allir markað sér stefnu um siðferði í fjárfestingum og samfélagslega ábyrgð.
Í fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir að sjóðurinn eigi að „líta til og stuðla að samfélagslegri ábyrgð í þeim félögum sem sjóðurinn fjárfestir í.“
Í stefnu Gildis segir að með ábyrgum fjárfestingum sé átt við að litið sé til umhverfismála og félagslegra málefna.
LSR segist gera „kröfu til þess að fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í sýni ábyrgð gagnvart samfélagslegum gildum og umhverfinu.“
Ingvild segir að þetta geri mál Eimskips svo sérstakt. „Ég segði að það væri hrein og klár undantekning þar sem fjárfestum er ætlað að gegna hlutverki í því, hvernig eignasafnið eða fyrirtækin sem þeir fjárfesta í, ganga fram.“
Í yfirlýsingu Eimskips vegna umfjöllunar Kveiks, segir að GMS hafi verið kaupandi skipanna tveggja og það hafi verið val kaupandans að afleggja skipin. Í svari GMS við fyrirspurn Kveiks vegna þessa segir að GMS hafi aðeins haft milligöngu um kaup skipanna, en ekki verið eigandi. Skráður eigandi skipanna voru félögin Melinda Maritime og Nova One Maritime, skráð í Líberíu. Samkvæmt skipaskrá Lloyds er GMS endanlegur eigandi (e. beneficial owner) í gegnum þessi tvö félög.
HÉR ER HÆGT AÐ LESA ÍTARLEGA FRÁSÖGN KVEIKS OG/EÐA HORFA Á ÞÁTTINN